138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir aldeilis ágæta túlkun á því sem hefur verið að gerast hér undanfarið ár í sambandi við þessa Icesave-samninga svokallaða og Icesave-málið. Hæstv. ráðherra fjallaði um að það gæti verið að við fengjum á okkur kæru fyrir að hafa ekki staðið rétt að innleiðingu tilskipunar um tryggingarinnstæðusjóðinn og benti á að það hefði verið hægt að safna meiru í sjóðinn til þess e.t.v. að standa undir meiru af þeim skuldbindingum sem sjóðurinn hafði tekið á sig.

Það liggur ljóst fyrir að það var alveg rétt farið að hvað tilskipunina varðar og þetta 1% var inni í sjóðnum sem hún kveður á um. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Ef við hefðum safnað inn í sjóðinn, segjum t.d. bara öllum innstæðunum, hvernig á þá að reka bankakerfi? Hvernig er hægt að reka bankakerfi ef (Forseti hringir.) megnið af innstæðunum liggur inni í sjóði? Það er ljóst (Forseti hringir.) að þó að þetta hefðu verið 2%, 3%, 4% hefði það engu máli skipt í þessu samhengi.