138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni. Ég held að það hefði verið umtalsvert svigrúm þarna ef við hefðum verið tilbúin til þess að láta reglurnar vera það harkalegar að þær hefðu í reynd komið í veg fyrir þessa starfsemi. Það voru þær hins vegar ekki. Hitt er rangt sem hv. þingmaður segir og hefur ítrekað verið haldið fram, að það hafi verið einhverjar evrópskar reglur sem knúðu Seðlabankann til þess að létta bindiskyldunni af erlendum útibúum. Það er bara rangt. Það voru hins vegar ábendingar frá Evrópska seðlabankanum um hvernig góðir bankahættir væru, en þetta voru ekki skuldbindandi reglur á einn eða neinn hátt. Það voru engar nauðir og engar lagalegar skyldur sem þvinguðu íslenska Seðlabankann á allra versta tíma í íslenskri hagsögu til þess að létta þessum skyldum af Landsbankanum og gera mönnum þar með kleift að halda áfram þessari óábyrgu sjóræningjastarfsemi, auka á hana á sama tíma og Fjármálaeftirlitið var að reyna að vinda ofan af vitleysunni. (Gripið fram í: Eina sem ég þakka fyrir er að þú hafi ekki verið bankamálaráðherra á þessum tíma.) (Forseti hringir.)