138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get t.d. svarað með því að vitna í bréf frá 15. maí þar sem formaður samninganefndar Breta svarar bréfi frá samninganefndarformanni okkar. Í annarri málsgrein þess bréfs er sagt, ef ég leyfi mér að þýða þetta hér, standandi í pontu:

„Ef við förum aftur til októbermánaðar, samþykktu hollensk og bresk stjórnvöld að útvega Íslandi lán til að gera upp við innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi og til að tryggja þeim lágmarksfjárhæðir. Síðan þetta varð hafa hollensk og bresk stjórnvöld gert nauðsynlegar ráðstafanir og gert upp við innstæðueigendur fyrir hönd Íslands.“

Það er alveg ljóst að þannig var á það litið af þeirra hálfu og síðan var vitnað í að þetta hafi allt saman verið endanlega staðfest og innsiglað í samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Varðandi fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hvet ég hv. þingmann til að gera eins og ég, lesa það sem hæstv. þáverandi utanríkisráðherra sagði sjálf á þeim tíma, (Forseti hringir.) í nóvember, þegar þetta var upplýst.