138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni fólu Brussel-viðmiðin í sér fleira en að taka tillit til aðstæðna Íslendinga. Þau fólu líka af sér af Íslands hálfu það að ábyrgjast lágmarksinnstæðutrygginguna og að þiggja aðstoð Breta og Hollendinga við það í formi lána. Á því var hnykkt sama dag og gengið var frá þessu með viðbót inni í samstarfsyfirlýsingunni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja“, o.s.frv., að Ísland og ríkin ræði saman á næstu dögum.

Forfjármagna? Já, vegna þess að þau höfðu boðið fram lán. Og í öðru tilvikinu var búið að skrifa undir að það lán yrði þegið og það lán átti að vera til 10 ára á 6,7% vöxtum. Það eru forfjármögnunarhugmyndirnar sem ganga inn í samstarfsyfirlýsinguna og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það voru engar aðrar hugmyndir uppi á borðum þannig menn geta ekki (Forseti hringir.) skautað yfir þann veruleika sem þarna blasir við, að þetta voru áformin (Forseti hringir.) um að ganga frá málinu.