138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál virðist alltaf festast í umræðum um liðna tíð, það var ekki ætlun mín þó að ég leyfði mér að blanda mér inn í það vegna (Gripið fram í: Ha?) þeirrar athygli sem svokölluð Brussel-viðmið hafa fengið. Það hlýtur að vera leyfilegt að vísa í samtímagögn frá því sá gerningur var. Og hvað sögðu aðstandendur hans um hann sjálfir? Er það ekki einhver órækasti vitnisburðurinn, burt séð frá því hvað menn skrifa nú ári síðar.

Ég gerði ekkert annað en að fletta upp í opinberum gögnum og lesa upp úr þeim. Vonandi treysta menn mér til þess að fara þar rétt með. Ég las orðrétt upp það sem fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sögðu á blaðamannafundi þegar þeir kynntu málið.

Varðandi það sem menn hafa síðan hlaupið frá — hver var það sem ákvað að reyna ekki að fara í mál við Breta vegna beitingar hryðjuverkalaganna og lét frestinn renna út 7. janúar 2009? Var það ekki fyrrverandi ríkisstjórn með sér við hlið og til ráðgjafar þáverandi formann utanríkismálanefndar, (Forseti hringir.) hv. þm. Bjarna Benediktsson?