138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans ræðu. Ég hjó eftir því að hann minntist ekki einu orði á IFS Greiningu eða lögmannsstofuna Mishcon de Reya í ræðu sinni og vakti það athygli mína. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvers vegna hafi í upphafi verið samið við þessa lögmannsstofu Mishcon de Reya um að vinna fyrir ríkisstjórnina. Hvers vegna var hún valin og hvers vegna var samið við hana?

Hæstv. ráðherra talar gjarnan um gögn, fyrirliggjandi gögn, sagan muni sýna þau og annað. Í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar kemur fram að ekki er enn búið að upplýsa þingmenn um öll gögn í málinu, að hér sé greinargerð frá því í mars frá Mishcon de Reya sem ekki hafi verið dreift. (Utanrrh.: Hún er komin.) Er þetta rétt? Hvenær á að láta þingmenn hafa það ef það er komið, hæstv. ráðherra?

Mig langar því að spyrja: Eru fleiri gögn? Og fyrst hæstv. utanríkisráðherra er hér að gaspra fram í, hvernig eigum við að trúa því (Forseti hringir.) að allt sé komið upp á borðið? Ég trúi því bara alls ekki.