138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hin skjalfestu gögn málsins sýna hið gagnstæða. Það tókst að þoka málinu úr þeim farvegi sem það var í í október, nóvember, desember, janúar, yfir til mun hagstæðari lausnar. Það er ómótmælanlegt, þannig er það. (TÞH: Ég mótmæli.) Það er ómótmælanlegt (TÞH: Ég mótmæli.) að þau lánskjör, sá lánstími og þeir vextir sem uppi voru, þegar menn voru að tala um að klára málið á nokkrum dögum og settu um það skuldbindandi fyrirheit inn í samstarfsyfirlýsingu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, voru Íslandi mun óhagstæðari. (Gripið fram í: Hvernig?) Ég hef ekkert gert annað en að vitna í óbreytt orð, beinar tilvitnanir, í október- og nóvembermánuði. Það er greinilega mjög viðkvæmt. Það er greinilega mjög viðkvæmt. Ég held að hæstv. þáverandi forsætisráðherra hafi orðað þetta hvað best þegar hann sagði 13. október, með leyfi forseta:

„Það er enginn góður kostur í þessari stöðu þannig að við þurfum að velja leið sem lágmarkar tjónið fyrir okkur og gerir okkur kleift að ná þeim markmiðum sem við þurfum að ná svona í öðrum málum.“ (Gripið fram í.)

Þetta var og er kjarni málsins. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég get alveg gert þessi orð fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, að mínum. (Gripið fram í.) Það er enginn góður (Forseti hringir.) kostur í þessari stöðu og við (Gripið fram í.) verðum að velja þá leið sem lágmarkar (Forseti hringir.) tjónið. (Gripið fram í.) Og skammist ykkar sjálfstæðismenn.