138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við Icesave-samningana og er nú mál að linni. Safnað hefur verið gögnum um allar hliðar málsins og umræður í þingsal og í fastanefndum verið ítarlegar. Álit þeirrar sem hér stendur hefur ekki breyst frá 2. umr. um frumvarpið þess efnis að samningarnir séu ásættanlegir, einkum eru sjö greiðslulaus ár mikilvæg fyrir þjóð í efnahagsvanda og samanborið við önnur lán sem ríkið hefur tekið vegna efnahagshrunsins eru lánakjörin hagstæð.

Einnig fylgja samningar um uppgjör þar sem eignir Landsbankans koma til lækkunar höfuðstóls og möguleiki á uppgreiðslu hvenær sem er ef betri lánakjör bjóðast annars staðar. Fyrirvararnir sem samdir voru í sumar eru auk þess til þess fallnir að verja ríkissjóð þannig að ef svo ólíklega vildi til að erfiðlega tækist að endurreisa efnahagslífið er í samningunum tilgreind hámarksgreiðsla miðað við hagvöxt. Varnarhlutverk fyrirvaranna er mikilvægt jafnvel þótt þær breytingar hafi verið gerðar að vextir verði alltaf greiddir og lengt verði í láninu ef eitthvað stendur eftir árið 2024.

Engum Íslendingi finnst þetta mál geðfellt en það hverfur ekki frá okkur fyrir það. Það er nauðsynlegt að ganga frá málinu, semja um lausn svo sjáist fyrir um stöðu efnahagsmála hér á landi eins og kostur er. Þau skref þarf að stíga sem skapa íslensku efnahagslífi trúverðugleika að nýju.

Virðulegi forseti. Í umræðum stjórnarandstöðunnar um Icesave hefur þeirri sem hér stendur á stundum orðið hugsað til þess þegar Lísa í Undralandi spurði köttinn í hvaða átt hún ætti að halda. Kötturinn svaraði eitthvað á þá leið að það færi eftir því hvert hún væri að fara. Ég er nú bara að fara eitthvað, sagði Lísa. Þangað kemstu örugglega, sagði kötturinn, einkum ef þú ferð nógu langt.

Það hefur oft verið erfitt undanfarna mánuði að átta sig á á hvaða leið stjórnarandstaðan er í þessu máli. Við þurfum að vita hvert við erum að fara og ryðja hindrunum að takmarkinu staðfastlega úr vegi. Tryggja þarf velferð þjóðarinnar í nútíð og framtíð og samkomulag það sem nú bíður staðfestingar er þrátt fyrir allt hluti þeirrar áætlunar. Með því að ganga frá samningunum um skuldbindingar okkar gagnvart Bretum og Hollendingum sendum við ótvíræð skilaboð um að við vitum hvert við stefnum og afleiðingarnar verða meðal annars þær að lánshæfi okkar batnar. Íslenska ríkið og íslenskt atvinnulíf þurfa á því að halda.

Nú er það svo að Icesave-reikningarnir eru ekki stærsta vandamál okkar því að skuldastaðan er slæm eftir fall bankanna og stóra skuld Seðlabankans. Þá eru margar efnahagsstærðir, t.d. raungengi og verðbólga, háðar því hvernig staðið er að stjórn efnahagsmála. Sýna þarf staðfestu og aga í ríkisfjármálum, samningar um skuldbindingar vegna Icesave einir og sér nægja augljóslega ekki við endurreisn efnahagslífsins en þeir eru nauðsynlegir til að hrinda úr vegi hindrunum svo að endurreisnarferlið geti gengið farsællega. Það ætti að vera hv. þingmönnum ljóst af þeim gögnum og álitum sem safnað hefur verið til að undirbyggja ákvörðun í málinu. Einhvern veginn lausn fæst samt örugglega einhvern tímann ef valin er einhver önnur lausn en hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Hverjir eru valkostir við þá samninga sem undirritaðir hafa verið og bíða staðfestingar Alþingis? Einn kosturinn sem nefndur hefur verið er að neita ríkisábyrgðinni og vísa Bretum og Hollendingum á íslenska dómstóla. Annar er að hafna þessum samningum og freista þess að ná nýjum og betri. Allar líkur eru á að hvor leiðin sem er muni hafa það í för með sér að viðsemjendur okkar leggi fram ýtrustu kröfur og niðurstaða fengist eftir langan tíma sem væri óhagstæðari en sú sem nú býðst. Í millitíðinni yrði Ísland algjörlega einangrað hvað varðar alþjóðleg fjármálasamskipti. Vart þarf að benda á afleiðingar þess fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum. Einnig er ljóst að ríki í Evrópu hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslendinga eru í Icesave-málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði Evrópusambandsins er þátttaka í EES í uppnámi. Að halda niðri í sér andanum og vonast til að vandamálið hverfi, einkum ef andanum er haldið nógu lengi, er ekki heldur valkostur í málinu, virðulegur forseti, vandann þarf nefnilega að leysa.

Með vísan til þeirra röksemda sem koma fram í almennum athugasemdum við frumvarpið um breytingar á lögum nr. 96/2009 og í nefndaráliti meiri hlutans og fylgigögnum þess er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Með því að staðfesta ríkisábyrgð á láni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sýnum við ábyrgð og varfærni við meðhöndlun ríkisfjármála og greiðum um leið fyrir aðgengi Íslands að erlendum lánamörkuðum. Ef lyktir málsins dragast hins vegar enn á langinn þýðir það ófullnægjandi lánafyrirgreiðslur, viðvarandi efnahagsleg vandkvæði og tafir í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun. Allt hefur það slæm áhrif á efnahag heimila, velferð þjóðarinnar og lífskjör og gæti haft enn meiri og alvarlegri afleiðingar en þegar hafa orðið vegna efnahagshrunsins. Með því að hafna samningunum og neita ríkisábyrgð tæki Alþingi Íslendinga mikla efnahagslega og pólitíska áhættu. Áhættusækni hluta þjóðarinnar hefur komið okkur í þann vanda sem við glímum nú við, Icesave-málið allt er afsprengi slíkrar hegðunar. Eitt er víst að þegar kemur að hag þjóðarinnar er slík hegðun engan veginn boðleg.

Við úrvinnslu þess vanda sem við stöndum frammi fyrir og sem skref í átt að betri ímynd Íslands meðal annarra þjóða og um leið skref í átt að bættum lífskjörum hér á landi er nauðsynlegt að ganga frá málinu. Það samkomulag sem náðst hefur við viðsemjendur er ásættanlegt og til þess fallið að greiða fyrir endurreisnarferlinu. Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að samningarnir um Icesave eru ekki ástæða efnahagsvandans eins og málflutningur sumra hv. þingmanna virðist benda til. Samningarnir eru þvert á móti partur af lausn vandans.