138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en mig langar þá að spyrja: Hvað reglur eru það, að mati hv. þingmanns, sem við erum þá að brjóta? Er það vegna þess að við settum neyðarlögin? Ef svo er af hverju er þá ekki löngu búið að henda okkur út úr EES vegna þess að við samþykktum þessi neyðarlög á Alþingi fyrir rúmu ári?

Mig langar líka að vísa til þess sem fram hefur komið hér í þinginu varðandi það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt, að okkur hafi verið hótað grímulaust af Evrópusambandinu. Þeirri spurningu var beint til hæstv. forsætisráðherra um hvaða hótanir væri að ræða og þá kannaðist hún ekkert við þær hótanir. Er þetta ekki bara einhver hræðsluáróður sem hv. þingmaður hefur orðið fyrir af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar og er ekki rétt að kíkja aðeins á það hvernig þetta allt saman er rökstutt? Það hefur nefnilega verið upplýst hér í þingsalnum í dag að allt þetta mál virðist byggjast á einhverjum misskilningi. Öll röksemdafærsla ríkisstjórnarflokkanna virðist byggjast á einhverjum misskilningi þar sem hæstv. fjármálaráðherra vísaði í það að við hefðum verið skuldbundin af fyrri ríkisstjórn með minnisblaðinu við Holland þegar fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segir að það minnisblað hafi einmitt verið núllstillt, (Forseti hringir.) það hafi verið úr sögunni, við það að Brussel-viðmiðin voru undirrituð.