138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Reyndar kom ein fullyrðing fram í máli hennar sem ég er ekki alveg sammála, hv. þingmaður sagði nefnilega að þegar við værum búin að samþykkja Icesave mundi lánshæfismat okkar batna. Í mínum huga er lánshæfismat byggt á getu hvers ríkis til að standa undir þeim skuldbindingum sem það tekur að sér. Mig langar að biðja hv. þingmann um að rökstyðja þetta aðeins frekar, hún nefndi þetta í einni setningu og ég fæ þetta ekki til þess að koma heim og saman.

Mig langar síðan að beina annarri spurningu til hv. þingmanns og hún er sú hvort hv. þingmaður telji að Íslendingar hafi staðið jafnfætis Bretum og Hollendingum við þessa samningagerð. Við vorum undir endalausum hótunum, bæði beinum og óbeinum, allan tímann. Ég spyr hv. þingmann: Stóðum við við þessa samningagerð jafnfætis Bretum og Hollendingum?