138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvelt að halda hv. þingmanni ánægðum, hún hefur verið ánægð með þetta mál alveg frá upphafi, alveg sama hvaða vinkla, sveigjur og beygjur málið hefur tekið, hún hefur alltaf verið ánægð með þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með.

Allt í lagi, það er afstaða út af fyrir sig. Mér finnst það þó nokkuð skrýtið vegna þess að við erum auðvitað í töluvert ólíkri stöðu þeirri sem við vorum í í júní þegar samningar voru undirritaðir og það hefur töluvert mikið breyst. En rétt er að rifja það upp að ef hv. þingmaður og flokksfélagar hennar í Samfylkingunni hefðu einir ráðið hefði ótakmörkuð ríkisábyrgð verið samþykkt í júlí án nokkurra fyrirvara og skilyrða, það liggur alveg ljóst fyrir.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um skuldbindingu Íslands og skuldbindingar, að við stæðum við skuldbindingar. Ég er að velta fyrir mér hvort hún er þá ósammála því sem segir í 2. gr. frumvarpsins: Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu (Forseti hringir.) lágmarkstrygginga til innstæðueigenda o.s.frv.? Er þetta marklaus yfirlýsing í frumvarpinu?