138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns vil ég segja að við Íslendingar erum ekki ein um þessa skoðun. Fjármálaráðherra Hollands lýsti því yfir 3. mars sl. að innlánstryggingakerfið virkaði ekki þegar til allsherjarhruns kæmi. Hann sagði auk þess að skattgreiðendur ættu ekki að greiða fyrir tap sparifjáreigenda. Það er því ekki rétt að Íslendingar séu einir með þá skoðun. Viðsemjandi okkar, fjármálaráðherra Hollands, er á þeirri skoðun að Íslendingar hafi ekki átt að greiða, það er svo merkilegt. (GuðbH: … staðfestingu á þessu …) Þetta er til hjá fjármálaráðuneyti Hollands, (Gripið fram í.) ég skal bara senda þingheimi það.

Þá langar mig til að velta því upp, frú forseti, hvað muni gerast í málsmeðferðinni, af því að menn hafa verið að kvarta undan því hvað muni gerast ef þetta verður fellt eða eitthvað slíkt. Í fyrsta lagi getur það gerst að málið verði fellt, í öðru lagi að málinu verði frestað eða vísað til ríkisstjórnarinnar og í þriðja lagi að málið verði samþykkt. Þá getur það gerst, því komin er breytingartillaga um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu og það verði samþykkt, eða þá að forsetinn skrifi ekki undir og sendi það í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi til greina. Einnig að forsetinn skrifi undir og engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði og málið samþykkt og búið, menn henda vandanum aftur fyrir sig og gleyma honum í bili.

Hvað gerist í kringum okkur ef þessi tilfelli koma upp? Í fyrsta lagi, ef málið verður fellt, hvað gerist þá? Þá segja sumir að lánshæfismatið muni falla á Íslandi. Það kann vel að vera. Reyndar held ég að lánshæfisfyrirtækin reikni með því að Icesave-skuldbindingin sé til staðar og hún verði leyst einhvern veginn og það samkomulag sem við erum að skrifa undir núna er eiginlega eins slæmt og það getur verið, þannig að lánshæfismatið getur varla versnað mikið meira.

Hins vegar ef það fellur þá getur verið að við verðum að sætta okkur við ruslvexti í kannski eitt eða tvö ár meðan íslenskt atvinnulíf er að ná sér upp og það eru vextir sem eru svipaðir og af Icesave, það er bara þannig. Ruslvextir eru svipaðir til skamms tíma og af Icesave. Skammtímavextir eru núna á góðar myntir eins og dollara nánast núll, það er um 0,5% eða 0,25%, eitthvað slíkt. Það eru ársvextir af ríkisskuldabréfum. Ríki sem lenda í greiðslufalli og einhverjum vandræðum eins og við erum að lenda þá í, ef við semjum ekki um Icesave eins og menn eru að spá, það yrði þá 4–5% álag og þá erum við komin upp í svipað og Icesave, það er bara þannig, það er nú ekki verra.

Menn segja að AGS verði í uppnámi. Það væri nú undarlegt, frú forseti. Þeir eru búnir að sverja af sér, þeir segjast ekki vera svarti péturinn í dæminu. Þeir segjast ekkert vera að kúga Íslendinga. Þá segja sumir að við fáum ekki lánið hjá Skandinövum. Þeir segjast einnig ekkert vera að kúga Íslendinga. Það vill enginn kúga Íslendinga en samt eru menn að því, vissulega, og hafa verið að því allan tímann.

Þó að AGS færi í uppnám erum við búin að fá fyrirgreiðsluna núna, þ.e. um þriggja mánaða tímabil, og á meðan getum við samið við Breta og Hollendinga ef þeir kæra sig um. Ef þeir kæra sig ekki um það verður að sækja þetta hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hvað gerist þá? Þá kemur upp spurningin hvort við eigum að greiða eða ekki. Ég hugsa að Hæstiréttur komist að því að það sé bara engin ríkisábyrgð á þessu, það gæti gerst. Það gæti líka gerst að ríkisábyrgð sé á þessum 20 þús. evrum en mér finnst mjög ólíklegt að Bretar og Hollendingar geti komið með sínar kröfur sem þeir tóku ákvörðun um sjálfir, umfram skyldu Evrópusambandsins, og gert kröfu til íslenska ríkisins um þær upphæðir. Það er aldeilis öldungis fráleitt. Jafnvel þótt það væri þá stendur nefnilega í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, í 9. gr., með leyfi forseta:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Það skal ávallt heimilt að greiða í íslenskum krónum og það er sko allt önnur og miklu betri staða. Þá bara borgum við Bretum og Hollendingum í íslenskum krónum og segjum þeim: Því miður, það eru gjaldeyrishöft hérna, þið fáið þetta ekki greitt út. Leggið þið þetta bara fyrir. Svo getum við sett á þetta fjármagnstekjuskatt og við getum sett á þetta eignarskatt o.s.frv. Við getum látið verðbólguna éta upp þessar skuldir ef þær verða ofviða. Það er allt annað að skulda í krónum, sem maður getur prentað peninga fyrir, en að skulda í erlendri mynt sem þarf að flytja út vörur fyrir. Það er allt annar handleggur.

Ég er nærri viss um að þessi staða yrði betri af því að við megum borga þetta út í krónum. Það er alveg sama hvað hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, hristir hausinn, það má borga út í krónum og þá gerum við það. (GuðbH: …milljarða … eftir að koma …) Já, það er bara nákvæmlega eins og með jöklabréfin, það yrði nákvæmlega sami vandinn. Gjaldeyrishöftin mundu náttúrlega vara eitthvað lengur og svo mundu Bretar og Hollendingar neyðast til að semja um eitthvað annað af því að þeir eru með svo mikið af krónum hérna.

Við getum sem sagt þurft að greiða allt eða ekkert og þá kemur spurningin um neyðarlögin, og jafnrétti. Menn tala mikið um jafnrétti milli innlánseigenda. Það er heimilt, frú forseti, að mismuna fólki í Evrópusambandinu eftir búsetu, það er heimilt. Skattalög eru mismunandi, það eru önnur skattalög á Íslandi en í Hollandi. Það er annar bótaréttur á Íslandi en í Þýskalandi, allt annar. Við hefðum getað borgað allar innstæður á Íslandi í gegnum bótakerfið. Við hefðum getað sagt að þeir sem tapa innstæðum í íslenskum bönkum fái það greitt í gegnum Tryggingastofnun, 20 milljónir eða hvað það nú er. Við megum mismuna þannig. Það er nefnilega heimilt að mismuna eftir búsetu í Evrópusambandinu, það er þannig.

Það sem við mundum gera ef þetta yrði fellt er að semja upp á nýtt með fulltrúum allra flokka. Ég hugsa að Bretar og Hollendingar mundu sjá sitt óvænna og senda tilkynningu viku seinna um að þeir samþykki fyrirvarana í gildandi lögum frá því í sumar, því að það voru nefnilega afskaplega réttlátir og skynsamlegir fyrirvarar sem tryggðu Íslendinga ef illa færi. Ef vel gengur borga Íslendingar upp í topp. Það eru ákveðnar líkur á því að það gangi vel, ég kem inn á það á eftir. — Tíminn er allt of stuttur.

Síðan er möguleiki á að þessu verði frestað eða vísað til ríkisstjórnarinnar og þá er samið upp á nýtt og aftur með fulltrúum allra flokka og það sem menn þurfa að leggja megináherslu á eru lægri vextir. Það eru hryllilega háir vextir á þessu, 5,55% ofan á pund og evru er gífurlega mikið eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar, sem aldrei var lesið þar. Þar er farið í gegnum það hvernig verðbólga hefur verið á Bretlandi, ég kem rétt inn á það á eftir ef ég hef tíma.

Svo er þriðji möguleikinn að málið verði samþykkt og þá með þjóðaratkvæðagreiðslu ef neitun forseta verður og ef þjóðin samþykkir að taka á sig þessa skuldbindingu — sem ég stórefast reyndar um — þá eru til staðar gildandi lög, og ég kem inn á það á eftir. Ef þjóðin hafnar yrðu væntanlega málaferli, sem er góður kostur, allt borgað í krónum, fram færu samningaviðræður eða þá að skeyti komi frá Bretum og Hollendingum um að þeir fallist á fyrirvarana.

Þá er það síðasta sem er eftir: Hvað gerist ef þetta verður samþykkt og forsetinn skrifar undir og engin þjóðaratkvæðagreiðsla og ekki neitt, hvað gerist þá? Menn hafa ekkert velt því fyrir sér. Þá hafa skuldir Íslands allt í einu stóraukist raunverulega, nú er þetta bara eitthvað sem er svífandi, en þá er þetta orðin raunveruleg aukning á skuldum, raunveruleg aukning á greiðslubyrði og raunverulegur möguleiki á því að við getum ekki borgað. Það er líka hættulegt. Ég hugsa að matsfyrirtækin muni segja: Jú, við áttum von á því að Íslendingar þyrftu að borga Icesave en þeir sömdu eins illa af sér og mögulegt var. Þannig að lánshæfismatið minnkar, lækkar. Það gæti gerst. Svo náttúrlega fellur það á ríkissjóð, sennilega 100–150 milljarðar á þessu ári, yfirstandandi ári, vegna vaxta og hækkunar á erlendu gengi. Þetta er nefnilega allt saman gengistryggt. Þetta er eins og með gengistryggð bílalán sem margir kvarta undan og þekkja.

Þá erum við allt í einu komin með alveg gífurlegan halla á ríkissjóði fyrir árið 2009 og það þykir ekki góð lexía hjá lánshæfisfyrirtækjunum. Ég er því ekki viss um að samþykkt frumvarpsins bæti stöðu Íslands nokkurn skapaðan hlut og ekki eigum við auðveldara með að fá lán frá erlendum lánardrottnum eða lánveitendum ef fyrirséð er að Ísland fari jafnvel í greiðsluþrot, geti ekki borgað það sem ríkisábyrgð er á, sem er alveg svakalegt. Ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér grein fyrir því hvað það þýðir.

Þá er ég búinn að fara í gegnum þetta og þá þyrfti sem sagt að stórhækka skatta og stórauka niðurskurð í ríkiskerfinu. Það þýðir að það verður aukinn brottflutningur fólks og eiginlega mikil óáran og allt miklu verra en er núna. Ég reikna með að við getum í slíkri stöðu — það eru um 50% líkur á því að við munum geta borgað, aldrei auðveldlega, alltaf erfiðlega, en það eru 50% líkur á því að við getum borgað. Það eru svona 35% líkur á því að við getum illa borgað, mjög illa, með miklum herkjum, með mikilli nauðung, fátækt og öðru slíku. Í áhættugreiningu IFS kom fram að það væru 10% líkur á því með varfærnu mati að íslenska ríkið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, þ.e. að ríkisábyrgðin gæti ekki haldið. Erlend matsfyrirtækin meta þetta á 20%, einhvers staðar þar á milli liggja líkurnar á því að við getum ekki borgað. Það er mjög slæm staða, ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér grein fyrir því hvað gerist þegar ríki getur ekki borgað það sem ríkisábyrgð er á. Hvað gerist þá? Þá erum við komin í mjög slæma stöðu og þá munu Bretar og Hollendingar segja við okkur: Viljið þið ekki selja Landsvirkjun til hollensks fyrirtækis? Og við neyðumst til að gera það því að við gerum bara það sem þeir segja okkur í slíkri stöðu. Þá munu þeir segja: Þarf ekki að virkja meira á Íslandi? Getið þið ekki virkjað pínulítið meira þannig að Landsvirkjun blómstri? Svo munu Bretar segja að Skotar hafi nú veitt lengi vel á Íslandi, gætu þeir ekki fengið kvóta?

Menn verða að gera sér grein fyrir því hvað gerist þegar þeir eru orðnir gjaldþrota, geta ekki staðið við ríkisábyrgð og háðir þeim sem hafa lánað þeim, því að þarna eru allt í einu komin lán. Það sem er núna óljós skuldbinding er allt í einu orðið lán ef þetta verður samþykkt. Við verðum bara að vona að Bretar og Hollendingar verði mildir húsbændur, við verðum að vona það og við lendum ekki í því að þurfa að fara að virkja það sem við kannski viljum ekki virkja o.s.frv. (Gripið fram í: … vinstri græna.)

Menn hafa töluvert talað um að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð og spurningin er sú: Hvernig bera menn eiginlega ábyrgð í pólitík? Jú, þeir segja af sér, eða hvað? Það vill svo til að af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru þrír hættir í pólitík, alveg. Er það ekki að bera ábyrgð? Þrír eru óbreyttir þingmenn. En af hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar sitja þrír áfram þrátt fyrir hrunið. Þar er enga ábyrgð að bera. Þeir eru: Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í gegnum allt hrunið og bar ábyrgð á því með þáverandi sitjandi ríkisstjórn. Hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hann sat í ríkisstjórn og var starfandi utanríkisráðherra meira að segja góðan hluta eftir hrun og ber því gífurlega mikla ábyrgð á því sem gerðist (Gripið fram í: Og þú.) og hann hefur ekki sagt af sér. Hann var hæstv. ráðherra, ég var ekki ráðherra. (Gripið fram í: Varstu ekki formaður …?) Svo Kristján Möller, hæstv. samgönguráðherra, sem búinn er að sitja í gegnum þunnt og þykkt í gegnum allar þessar hremmingar. Því er spurningin sú: Hvernig bera menn ábyrgð?

Sumir segja að búið hafi verið að semja, eitthvert plagg hafi alltaf svifið yfir vötnunum. Bíddu, af hverju voru menn þá að semja aftur? Ef búið var að semja af hverju var þá skipuð samninganefnd? Hvað átti hún eiginlega að gera fyrst búið var að semja?

Auðvitað var ekkert búið að semja eins og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur undirstrikað. Það var búið að semja um það að við skyldum semja og notast skyldi við Brussel-viðmiðin og notast átti við embættismannakerfi Evrópusambandsins við þá samninga. Ekkert af því var gert, ekkert.

Ábyrgð þeirra sem skrifuðu undir þennan samning hæstv. fjármálaráðherra er gífurlega mikil. Ég segi kannski ekki það sama og hann sagði við okkur áðan, að hann ætti að skammast sín, en það liggur við. Það er mikil ábyrgð að skrifa undir þvílík ókjör fyrir ókomnar kynslóðir Íslands sem þurfa að bera algjörlega ábyrgð á þessu, því að nefnd hans samdi þessa ógæfusamninga sem hann skrifaði undir og stjórnarliðar gáfu honum heimild til þess án þess að hafa séð samninginn og það er líka gífurlega mikil ábyrgð.