138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki blanda því inn í málið að Ísland sé einhver smáþjóð. Það kemur málinu ekkert við. Spurningin er bara þessi: Hvað eiga menn að borga með réttu? Ég vildi gjarnan fá úr því skorið fyrir dómstólum. Ef það fellur þannig borgum við bara í krónum og þá er staðan allt önnur. Þá þurfum við ekki að flytja út fisk og ál eða inn túrista til að standa undir þeim greiðslum. Þá prentum við bara peninga þannig að þetta verði þá innstæður hér á landi og hér eru gjaldeyrishöft svo að þeir geta aldrei flutt þetta út. Vinstri menn geta svo leikið sér að því að leggja fjármagnstekjuskatt á þetta allt saman og étið þar með upp eignir Breta og Hollendinga á Íslandi, og verðbólgan sem kemur í kjölfarið.

Ég sé engan vanda við það að Bretar og Hollendingar fari í mál, bara engan, út af þessu ákvæði í íslenskum lögum sem íslenskir dómstólar þurfa að fara eftir, um að heimilt sé að greiða innstæðurnar út í íslenskum krónum, og það munum við gera. Ég sé því ekki þennan vanda sem menn eru að blása upp, að allt hrynji hérna.