138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hlýtur náttúrlega að standa við það að rétt sé fyrir okkur að borga það sem hann er að kúga okkur til að borga. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvaði vinnslu á áætlun fyrir Ísland í hálft ár til að kúga okkur. (Gripið fram í.) Seðlabankinn er líka stórt mál og það er mikill vandi sem við þurfum að glíma við og það dugar okkur alveg, við þurfum ekki að taka Icesave á okkur aukalega.

Fyrirvararnir sem voru samþykktir í sumar eru farnir vegna þess að við munum borga hverja einustu evru og hvert einasta pund með 5,55% vöxtum til allrar framtíðar. Samkvæmt áliti IFS getur það orðið til 2046 sem við erum að borga af þessu láni með ofurvöxtum sem eru allt of háir og geta orðið geysilega háir ef verðbólga verður lítil í Bretlandi. Hv. þingmaður er náttúrlega búinn að lesa öll nefndarálitin og í nefndaráliti sem ég skrifa undir frá hv. efnahags- og skattanefnd til fjárlaganefndar — sem reyndar hefur aldrei verið rætt þar og þetta var allt saman í uppnámi í nefndinni líka — segir að það hafi verið tímabil í Bretlandi, frá 1921–1934, þar sem verðhjöðnun var að meðaltali 3% á ári. Ef slíkt gerðist aftur erum við að tala um 9% raunvexti af þessu láni og það er gjörsamlega óbærilegt fyrir Íslendinga að búa við slíkt. Slíkt tímabil gæti komið aftur. Af hverju skyldi það ástand ekki geta skapast aftur fyrst það gerðist 1921–1934? Vextirnir eru hættulega háir og ég held að við þurfum að semja upp á nýtt um þá.

Það kemur fram að Bretar og Hollendingar veita sínum innlánstryggingarsjóðum miklu hagstæðari kjör en íslenska innlánstryggingarsjóðnum. Þá spyr maður: Hvar er allt jafnræðið? Hvað er að marka allt talið um jafnræði innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.