138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:34]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem í ræðustól til að mótmæla því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns um afstöðu Samfylkingarinnar til þessa máls. Ýmislegt hefur maður látið yfir sig ganga í sölum þingsins í sumar og haust. Það versta af því hefur komið úr munni framsóknarmanna, hv. þingmanna þeirra, þar sem þeir saka þingmenn stjórnarmeirihlutans um landráð oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. (Gripið fram í.) Að vera kallaður föðurlandssvikari í þessum sal er eitthvað sem ég átti ekki von á þegar ég bauð mig fram til þessa starfs en látum það eitt liggja hér. Hitt er svo annað mál að í sífellu er verið að gera því skóna að afstaða Samfylkingarinnar til Icesave-samningsins markist af einhverri Evrópuást eða dekri eða þjónkun við Evrópusambandið. Ég mótmæli slíkum málflutningi, hv. þingmaður, hástöfum. Það er kaldhamrað hagsmunamat þeirra sem eru í Samfylkingunni að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan þessa ríkjasambands, það svífur engin rómantík yfir vötnum í því stöðumati, fyrst og fremst hagsmunamat Íslendinga að það sé betra fyrir hagsmuni okkar sem þjóð að vera þar innan dyra. Enda hvað sýnir sig í þeim veruleika sem við okkur blasir í dag þegar slík ríkjablokk beitir sér af alefli gegn okkur í þessu máli? Það sýnir sig hvar borgar sig að standa í þeim efnum eða er ekki svo? Er ekki hagsmunum okkar betur borgið innan slíks bandalags en fyrir utan? Enginn er annars vinur í milliríkjaviðskiptum eða í pólitík milli landa, það er ekki svo, fyrst og fremst hagsmunamat þeirra þjóða sem standa að Evrópusambandinu að það sé betra fyrir (Forseti hringir.) hagsmuni þeirra að vera þar innan dyra. Það eru engin annarleg sjónarmið sem liggja að baki skoðunum Samfylkingarinnar frekar en skoðunum Framsóknarflokksins.