138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að loksins kom maður aðeins við kaunin á Samfylkingunni. Nú sýna þeir sitt rétta andlit, flýja raunveruleikann, vísa á einhverja aðra, gleyma því að það voru þau, Samfylkingin, gamli krataflokkurinn sem keyrði hér í gegn samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem allt þetta vandamál byggir á. (Gripið fram í.) Það byggir ekkert á einkavæðingu bankanna. (Gripið fram í.) Ef svo er væri ríkisstjórnin varla að einkavæða bankana aftur í dag. (Gripið fram í: Þetta er öðrum að kenna.)

Vitið þið það, ef við gefum okkur það að síðasta einkavæðing hafi verið eitthvað skrýtin, við skulum bara gefa okkur það, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, er þá ekki eitthvað dularfullt við það að einkavæða bankana í dag og hafa ekki hugmynd um hverjir eru að kaupa þá, að geta ekki einu sinni upplýst um það? Eru það hugsanlega sömu menn og felldu bankana? Getur það verið? Það kæmi mér ekki á óvart miðað við það hvernig Samfylkingin alla vega hefur kosið að ráða til sín þá aðila sem unnu og stjórnuðu þessum bönkum þegar allt fór á hvolf. Það kæmi mér ekki á óvart þó að menn vissu eitthvað meira um þetta en ég veit, ég þori ekki að segja. (Gripið fram í.)

Ég skal skrifa upp á þá tillögu sem hv. þingmaður nefndi áðan ef hún gerir eitt fyrir mig, frú forseti, ef hún er til í að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir þátt Alþingis, ríkisstjórnar og fjölmiðla frá 1. október 2008 eftir hrunið. (Gripið fram í: Það er verið að rannsaka það.) Sú rannsókn sem nú fer fram nær eingöngu fram að hruni. Það er full ástæða til að skoða hvað gerðist hér eftir hrun og það held ég að væri mjög verðugt verkefni fyrir okkur öll, fyrir Alþingi að takast á við.