138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal standa að öllum tillögum sem varða rannsókn á því sem gerst hefur í íslensku samfélagi, því að ólíkt hv. þingmanni og stjórnarandstöðunni lít ég ekki á þetta sem pólitískt spil heldur grundvöll fyrir sæmilegu samfélagi á Íslandi, samfélagi þar sem fólk þrífst og þar sem það treystir sínum stjórnvöldum. Við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo geti orðið.

Það er nú skemmtilegt, frú forseti, þegar farið er að gera EES-samninginn að okkar stærsta vanda, ég bíð bara eftir að innleiðing sjónvarps eða síma verði tekin upp. Það hefur líka eflaust haft áhrif á þá stöðu sem við erum í í dag. Best væri væntanlega í huga hv. þingmanns að við værum ekki í neinum samskiptum við umheiminn. Ást mín á Evrópusambandinu hefur ekkert með Icesave-samningana að gera. Icesave-samningarnir eru grundvöllur þess að við komumst í sátt við alþjóðasamfélagið og (Forseti hringir.) getum byggt hér upp heilbrigt fjármála- og hagkerfi.