138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú var hæstv. samgönguráðherra rétt lýst. Einu sinni var notað hér á þingi orð sem mig minnir að núverandi forseti þjóðarinnar hafi notað um ákveðinn ráðherra. Ég ætla ekki að nota það orð en mér dettur það í hug.

Hæstv. ráðherra fór hér mikinn en hann gleymir því enn og aftur að hann sat í ríkisstjórn, ef ég man rétt. Kannski líður hæstv. ráðherra svona vel að sitja í sínu ráðuneyti að hann gleymir hreinlega stað og stund. Hann var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem var við stjórnvölinn þegar bankarnir hrundu. Hann var í ríkisstjórn þegar varnaðarorðin komu og hlustaði ekki á þau. Hann var þar, þessi maður, þessi ráðherra sem hér stendur og belgir sig út eins og hann sé alsaklaus. Það var samfylkingarráðherra sem var á vaktinni þegar Icesave varð til í Hollandi og blés út. (Gripið fram í.) Fleiri samfylkingarmenn hefðu mátt segja af sér (Gripið fram í.) og það mun væntanlega koma í ljós, hæstv. samgönguráðherra, (Gripið fram í.) að fleiri hefðu mátt fara úr þeirri ríkisstjórn sem þá var.