138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:05]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ræða mín var kaflaskipt og stór hluti hennar fjallaði um það að ákveðið tækifæri var til þess að taka upp ný vinnubrögð í þinginu í sumar. Vonir mínar og margra annarra þingmanna stóðu til þess að unnt yrði að afgreiða þetta mál á þann veg, enda hafa þrír flokkar í þinginu komið að málinu með einum eða öðrum hætti. Ég tel það ljóst, eins og ég sagði í ræðu minni, að í sumar þegar Sjálfstæðisflokkurinn valdi þá leið að sitja hjá við afgreiðslu málsins hafi það komið í ljós að enginn vilji var hjá flokknum til þess að taka þátt í því að klára málið.

Varðandi Evrópusamstarfið og þá lagaumgjörð sem liggur þessu máli öllu til grundvallar vil ég segja að eins og hv. þingmaður veit afar vel kemur alltaf nýr dagur í pólitík. Ég lít svo á að með því að ganga frá þessum samningi sé þessu máli síður en svo lokið enda hefur það komið fram í umræðunni að bjóðist mönnum t.d. betri lánakjör er hægt að greiða upp samninginn hvenær sem er okkur að kostnaðarlausu. Þess vegna hefði maður gjarnan viljað heyra það hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eins og t.d. kemur fram í framhaldsnefndaráliti frá 3. minni hluta fjárlaganefndar þar sem þeir tala um að vaxtakjörin samkvæmt þeim samningi sem frumvarpið lýtur að, séu með öllu óásættanlegir og mun verri en nú þekkist á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum. En þegar ég hef leitað eftir því hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðunni í kvöld hafa þeir ekki getað nefnt sambærilega samninga eða komið með dæmi um hvar hægt sé að fá betri kjör.

Ég lít svo á að vinna beri þetta mál áfram á vettvangi Evrópusambandsins og ekki síst (Forseti hringir.) á vettvangi utanríkisráðuneytisins í samskiptum okkar við aðrar þjóðir.