138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:21]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það hér í ræðustól áðan að það kemur alltaf nýr dagur í pólitík og það kemur alltaf nýr dagur í samskiptum þjóða. Ég lít svo á að þessu máli sé ekki endanlega lokið með því sem gengið er frá hér. Enda hefur það komið fram í umræðum að nái menn betri kjörum, betri lánakjörum, eins og menn hafa ítrekað verið að segja að sé mögulegt að gera, er hægt að greiða þennan samning upp okkur algjörlega að kostnaðarlausu.

Það er líka hægt að vinna málið á alþjóðavettvangi og í samskiptum á milli þjóða. Það er stanslaust verið að gera það í hinum og þessum málum og auðvitað eiga Íslendingar að halda áfram að halda fram réttarstöðu sinni. Í ræðu minni leiddi ég fram þau rök sem mér finnast mikilvægust í þessu máli og af hverju ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að samþykkja þetta mál. Það eru önnur atriði sem aðrir nefna hér í ræðum sínum en ég hvet (Forseti hringir.) hv. þingmann til þess að lesa ræðu mína eða hlusta á hana á netinu og kynna sér hana til hlítar.