138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér á lokasprettinum svokallað Icesave-mál sem er orðið öllum vel kunnugt og mikið búið að tala í því máli. Mig langar samt í þeim ræðutíma sem ég hef hér til að fara aðeins yfir aðdraganda málsins, þ.e. alveg frá því að bankarnir hrundu fyrir rúmu ári.

Það er nefnilega þannig að frá því að það gerðist hafa íslensk stjórnvöld alla tíð haldið vitlaust á málunum. Hæstv. fjármálaráðherra fór, í ræðu sinni áðan, mjög vandlega yfir þær yfirlýsingar sem voru gefnar af hálfu íslenskra stjórnvalda þegar bankarnir hrundu og það kemur alltaf betur og betur í ljós að okkur hefur alla tíð vantað stefnu í málinu. Við höfum verið að gefa yfirlýsingar, bæði ábyrgar og óábyrgar, lofað einu og öðru og sitjum að hluta til uppi með það en hefðum við þau erfiðu skilyrði sem sköpuðust hér síðasta haust að átta okkur á því viðfangsefni sem við var að etja. Við hefðum að sjálfsögðu átt að fá einhvern færan samningamann í alþjóðasamningum, sem þekkir inn á þessi mál, til þess að fara yfir hvernig við ættum að vinna okkur út úr erfiðleikunum.

Það kom mjög berlega í ljós þegar hingað kom einn virtasti og reyndasti samningamaður í heiminum, Lee Buchheit frá Bandaríkjunum, og benti á þær aðferðir sem menn nota við skilyrði sem þessi. Það var feillinn í upphafi alla tíð. Þó verð ég að segja, virðulegi forseti, að það sem er þó sárgrætilegast við þetta allt saman er að við virðumst ekkert læra af öllum þeim mistökum sem við gerum vegna þess að við föllum alltaf í einhverjar gryfjur og við erum alltaf að takast á innbyrðis, stjórn og stjórnarandstaða, í staðinn fyrir að standa saman um það hvernig við ættum að losa okkur frá þessum málum. Það er það dapurlegasta við þetta.

Frá því að skrifað var undir samningana 5. júní, af hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, hefur þetta mál allt verið í skötulíki. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði hér í óundirbúnum fyrirspurnum 3. júní, tveimur dögum áður, að ekkert væri að gerast í málinu, það væru óformlegar þreifingar en engra stórra tíðinda að vænta. Innan tveggja sólarhringa voru síðan lagðir fram skriflegir samningar sem segir náttúrlega allt um það að menn voru þá komnir mjög langt í þessu máli og það er alveg hreint með ólíkindum.

Ég vil líka rifja það upp að þegar þetta var gert var komið fram að einn hæstv. ráðherra sem var þá starfandi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði miklar athugasemdir við þetta og lýsti andstöðu sinni við þennan gjörning þegar hann sat í hæstv. ríkisstjórn. Ég lít á það sem mjög alvarlegt mál að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra skuli skrifa undir samningana vitandi það að hugsanlega sé ekki meiri hluta fyrir því á Alþingi Íslendinga.

Í framhaldinu gerði hæstv. ríkisstjórn allt sem hún gat til þess að reyna að koma samningunum í gegnum þingið en sem betur fer mistókst það hjá hæstv. ríkisstjórn. Það sem gerðist í framhaldi af því var að þingið tók völdin af framkvæmdarvaldinu og fór í það að setja svokallaða fyrirvara. Það náðist pólitísk breið samstaða um fyrirvara Alþingis í ágústmánuði og það var mjög dapurlegt að við skyldum ekki ná að halda henni. Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á en við hefðum auðvitað átt að nýta þá pólitísku samstöðu og fá stjórnarandstöðuna með í lið til þess að fylgja því eftir hvernig það væri kynnt fyrir Bretum og Hollendingum hvernig íslenska þjóðin vildi standa að því til að verja sig í hinni fordæmalausu stöðu sem við erum í núna.

Því miður lánaðist okkur ekki að gera það og það skrifast að sjálfsögðu algjörlega á hæstv. ríkisstjórn, hvernig hún hélt á málunum eftir það. Það er alveg hreint með ólíkindum. Mér finnst það í hæsta lagi barnalegt af hæstv. ríkisstjórn að halda að í einni erfiðustu milliríkjadeilu landsins sé það boðlegt, og mér finnst það nánast vanvirðing við störf þingsins hér í allt sumar, að skrifa bréf til forsætisráðherra Breta og Hollendinga. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti? Að mínu viti er þetta fyrir neðan allar hellur. Það gat enginn vænst neins árangurs af því að gera þetta svona. Auðvitað átti hæstv. ríkisstjórn að krefjast þess að fá að setjast niður með bæði forsætisráðherrum og fjármálaráðherrum Breta og Hollendinga og fara yfir stöðu mála og kynna fyrir þessum einstaklingum lögin sem voru sett á Alþingi. Nei, hæstv. ríkisstjórn kýs að senda bréf sem svar barst við mörgum vikum síðar. Og hvernig heldur hæstv. ríkisstjórn að hægt sé að ná einhverri vitrænni niðurstöðu í þessa samninga með því að gera þetta með þessum hætti? Það er alveg hreint með ólíkindum að svo hafi verið.

Það hefur komið fram hér, í máli sumra hv. stjórnarþingmanna, og það kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls hér áðan — hann átti hér kaflaskipta ræðu, eins og hann orðaði það sjálfur, og ég er algjörlega sammála honum í því — að hann hefði upplifað það þannig að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við lokaafgreiðslu málsins hefðu þeir verið að hlaupast undan merkjum og hefði þá enginn vilji verið til sátta og verið falskur sáttatónn.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég var í mjög miklum vandræðum með það hvernig ég ætti að greiða atkvæði í þessu máli, ég viðurkenni það fúslega. Ég vann að málinu í fjárlaganefnd með mörgum þeim hv. þingmönnum sem störfuðu þar og við lögðum okkur fram um það að reyna að koma þessu upp úr pólitískum hjólförum og það tókst í vinnu fjárlaganefndar. Það sem réð úrslitum í því að ég sat hjá við endanlega afgreiðslu málsins — en greiddi að sjálfsögðu öllum fyrirvörunum atkvæði mitt — var það að ég var mjög ósáttur við að það skyldi vera búið að gera samning sem við gátum ekkert farið í. Við erum að setja hér lög um ríkisábyrgð en samningurinn er gerður á milli tryggingarsjóðanna, tryggingarsjóðs Íslendinga og Seðlabankans og síðan tryggingarsjóða Breta annars vegar og Hollendinga hins vegar. Við höfðum engin færi á því að fara inn í samninginn sjálfan vegna þess að Alþingi Íslendinga hafði enga aðkomu að samningunum.

Það sem ég var ósáttur við, og réð úrslitum í því að ég sat hjá við lokaafgreiðslu málsins, var það að við greiddum vexti frá 1. janúar 2009, sem þýðir það að við erum að greiða aukalega einhvers staðar í kringum 30–35 milljarða sem okkur bar ekki lagaleg skylda til að gera. Þó svo að fyrirvararnir hafi verið settir, sem voru mjög skynsamlegir, var mjög margt annað í þessum samningi, til að mynda það að við greiðum líka um 3 milljarða í umsýslugjöld til Breta og Hollendinga í kostnað fyrir það að greiða út bæturnar til íbúa í Bretlandi og Hollandi sem áttu innstæður á Icesave-reikningunum, án þess að nokkurn tíma hefðu verið færð fyrir því rök í hverju sá kostnaður fælist. Það var bara samið um u.þ.b. 3 milljarða sem ætti að greiða Bretum og Hollendingum fyrir það ómak að borga innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi, það væri umsýslukostnaðurinn eins og það var orðað.

Ég var mjög ósáttur við þetta og ég var svo sem mjög ósáttur við margt annað. Í samningunum var Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta búinn að skrifa undir það að falla frá þeim skaðabótum sem okkur yrðu hugsanlega dæmdar vegna þess að Bretar beittu okkur hryðjuverkalögunum. Það er hreint með ólíkindum að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skuli skrifa undir slíkan samning, að falla frá því að við getum sótt, ef við ættum þá einhverja kröfu á því, skaðabætur út af setningu hryðjuverkalaganna. Allir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hér inni eru væntanlega sammála um að það var mjög ómaklegt af Bretum og Hollendingum að setja þau lög.

Þetta réð fyrst og fremst afstöðu minni. Ég er mjög hugsi eftir að hafa heyrt suma hv. þingmenn halda þessu fram í ræðum í dag en því miður hafa hv. stjórnarþingmenn ekki talað mikið til þessa fyrr en núna í 3. umr. Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, að þetta hefur angrað mig töluvert, ég skal bara vera heiðarlegur með það. Það segir manni kannski að menn þurfi að tala meira saman og fyrst og fremst að læra af þeim mistökum sem alla tíð hafa verið gerð í þessu máli. Allir flokkar eiga einhverja sök, það er bara einu sinni þannig. Þó að ég hafi sest hér á þing í vor og hafi ekki komið að þessu með neinum beinum hætti á minn flokkur sannarlega sök á því hvernig fór í því grandvaraleysi sem var hér. Það eiga líka bæði framsóknarmenn, samfylkingarmenn og vinstri grænir. Við eigum hins vegar ekki að vera að rífast um það hér hvernig við stöndum að þessu heldur eigum við að snúa bökum saman til að ná árangri, til að verja hagsmuni Íslendinga sem við öll viljum gera.

Virðulegi forseti. Ég hef verið mjög hugsi yfir því þegar hv. stjórnarþingmenn hafa haldið því fram að svokallað minnisblað, sem var skrifað undir 11. október, hafi bundið ríkisstjórnina að einhverju leyti. Það er alrangt og ég hef sagt það margoft hér í þessum ræðustól að það er alrangt. Þó svo að hæstv. fjármálaráðherra taki upp á því að veifa þessu og gerði það síðast í lok 2. umr. í byrjun mánaðarins er þetta rangt. Þetta er rangur málflutningur og menn eiga ekki að vera með rangan málflutning. Það minnisblað sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi til utanríkismálanefndar milli 2. og 3. umr. staðfestir það endanlega. Þar lýsir hún því mjög vel hvernig þetta var gert og hvernig samkomulagið var núllstillt þegar samið var um Brussel-viðmiðin. Það var líka búið að lýsa því yfir af Hollendingum í þessu minnisblaði sem tveir embættismenn skrifuðu undir, einn frá framkvæmdarvaldinu og einn í Seðlabankanum, að þeir séu tilbúnir að virða þau og semja á öðrum forsendum en þetta minnisblað var um. Það er mjög dapurlegt að margir hv. þingmenn skuli enn halda þessu fram. Það er mjög dapurlegt og ég geri kröfu til þess eftir alla þessa umræðu að menn kynni sér málið þannig að þeir standi þá rétt að því hvernig það gekk.

Menn hafa sagt hér að þetta minnisblað hafi elt menn eins og draugur en ég vil árétta að ég spurði formann samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, sérstaklega að því sjálfur á fundi í fjárlaganefnd, hvort þetta hafi truflað samningsferilinn hjá íslensku samninganefndinni. Svarið var mjög einfalt: Nei, það truflaði okkur ekki neitt. Við vorum send út til að ganga frá lánasamningi og þetta truflaði okkur ekki neitt. Þó svo að Bretar og Hollendingar hafi hugsanlega verið að veifa þessu eitthvað truflaði það samninganefndina ekki neitt. Það var staðfest af formanni nefndarinnar og um það á ekkert að þurfa að ræða meira. Hæstv. ráðherrar eiga að láta af þeim ósið að vera að veifa þessu uppi í ræðustól Alþingis þegar þeir eiga að vita betur, að það er ekki bundið. Þá er ég líka mjög hugsi yfir því, virðulegi forseti: Getur það verið að einhverjir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar telji sig bundna af þessu minnisblaði þegar svo er sannarlega ekki?

Ég vil líka koma inn á það sem breytist í fyrirvörunum sem settir voru núna í ágúst. Þá er það náttúrlega fyrst og fremst þessi lagalegi fyrirvari sem var settur, um það að ef svokallaður úrlausnaraðili, eða þar til bær aðili var það nú orðað nákvæmlega í fyrri samningunum, mundi dæma þannig að Íslendingum bæri ekki skylda til að greiða þetta — og við skulum hafa í huga að Íslendingar hafa aldrei viðurkennt lagalega skyldu til þess að greiða þetta vegna gallaðrar löggjafar Evrópusambandsins — þá væri hægt að takmarka ríkisábyrgðina við það. Hugsunin á bak við það hjá lögfræðingunum sem settu þetta inn í fyrirvarana var sú að það þyrfti ekki að vera dómstóll sem mundi gera það, það gæti hugsanlega verið ráðherraráðið eða einhver önnur stofnun á vegum Evrópusambandsins sem mundi líta svo á að þessu þyrfti að breyta og þá gætum við fallið undir það og þá gátum við takmarkað ríkisábyrgðina við það. Núna er haldreipið hins vegar það að ef þetta verður þurfa menn að setjast niður með Bretum og Hollendingum og það er algjörlega undir sjónarmiði þeirra komið hvort við fáum þá einhverja leiðréttingu á þessu máli. Þó svo að fyrir liggi pólitísk yfirlýsing frá fjármálaráðherrum landanna er það ekki mikið í mínum huga.

Mig langar síðan á þeim stutta tíma sem ég á eftir aðeins að koma inn í fyrirvarann sem kenndur er við Ragnar H. Hall um lagskiptingu krafnanna. Við erum alltaf að tala um að við viljum tryggja lágmarksinnstæðueign sem er 20.887 evrur. Það er mjög einfalt að skýra þetta út, virðulegi forseti. Það er þannig að það eina sem farið er fram á er að þegar íslenskt fyrirtæki verður gjaldþrota verði farið eftir íslenskum lögum og gjaldþrotarétti. Það er það eina sem verið er að fara fram á, ekkert annað. Það er nú öll óbilgirnin í því. Síðan gerir tryggingarsjóðurinn samning við bresku og hollensku tryggingarsjóðina, að þeir séu jafnstæðir í kröfunum. Það er mjög óréttlátt að þetta sé gert með þessum hætti og með því að setja þessa EFTA-krækju á fyrirvarann er nánast búið að draga allt hald úr honum.