138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir ræðu hans, mér fannst hún ærleg og málefnaleg. Kannski fannst mér mest til koma þegar hv. þingmaður lýsti því að hann hefði átt í erfiðleikum með að gera upp við sig hvort hann ætti að greiða atkvæði með eða á móti frumvarpinu þegar það varð að lögum fyrr á þessu ári, í lok ágúst. Það hefur þá væntanlega vafist fyrir honum hvorum megin háskinn var meiri, að samþykkja frumvarpið eða láta það falla ósamþykkt.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er háski á báðar hendur. Ég styð þetta frumvarp vegna þess að ég tel að í stöðunni sé þetta besta leiðin til að greiða úr þeirri mjög svo erfiðu milliríkjadeilu og flækju sem þetta mál hefur bakað okkur Íslendingum. En það er samt þannig að enginn getur flúið fortíðina.

Hv. þingmaður sagði réttilega að menn ættu ekki að láta fortíðina þvælast of mikið fyrir sér. Ég er honum algjörlega sammála um það. Ég skorast ekki undan minni ábyrgð sem ráðherra í núverandi ríkisstjórn, ríkisstjórninni þar áður og líka þar áður. Ég tel að í þeirri stöðu sem kom upp hafi menn valið þá leið sem var happadrýgst.

Hv. þingmaður gerir minnisblaðið að umtalsefni og segir að hann geri kröfur til þess að enginn telji að það hafi haft áhrif. Ég ætla ekki að verða við kröfu þessa þingmanns, alls ekki. Menn geta aldrei tekið slíkan hlut og núllstillt hann eins og hv. þingmaður segir. Það er hins vegar alveg rétt hjá honum að fyrrverandi utanríkisráðherra sagði í minnisblaði sínu að þetta hefði verið pólitísk skuldbinding en hefði ekki réttarleg áhrif. Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra lesið upp bæði yfirlýsingar hennar og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra þar sem þau skýra í hverju þessi pólitíska skuldbinding felst. Hún felst í því að greiða það sem við getum kallað lágmarkstrygginguna. Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra sagði það hreint út. Það er ekki hægt að slíta það frá þessu máli. Þess vegna voru Brussel-viðmiðin sett, (Forseti hringir.) til að reyna að komast frá þessu. Þess vegna erum við í þessari stöðu. Auðvitað hafði minnisblaðið áhrif þó að það hafi kannski ekki (Forseti hringir.) haft úrslitaáhrif.