138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið. Mín skoðun er sú að þegar við vorum búin að setja fyrirvarana við frumvarpið í ágústlok sem þessi breiða pólitíska samstaða náðist um leit ég svo á, og lít svo á enn þann dag í dag, að tillit hefði verið tekið til svokallaðra Brussel-viðmiða. Það er alveg klárt í mínum huga, sérstaklega eftir að hafa lesið minnisblaðið frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og gert mér enn þá betur grein fyrir því ástandi sem var. Það er líka rakið í þessu minnisblaði hvernig ástandið var hjá hinum Evrópusambandslöndunum. Þar gáfu menn yfirlýsingar eins og við gerðum til að reyna að verjast áhlaupi á bankakerfið. Þar voru menn fyrst og fremst að hugsa um að það yrði ekki áhlaup á bankakerfið í þeirra eigin landi.

Það var markmiðið hjá þeim að gera það. Þess vegna taldi ég að þegar lagaleg óvissa ríkir núna um það hvort okkur beri að greiða þetta vegna gallaðrar Evróputilskipunar hafi þetta verið — ef Bretar og Hollendingar hefðu samþykkt fyrirvarana eins og þeir voru hefðu allir getað sæst á það. Bretar og Hollendingar hafa það ekkert í hendi þó að menn bendi á dómstólaleið og ef það færi þá leið er ekkert víst að Bretar og Hollendingar fengju neitt út úr því. Þeir gætu alveg eins tapað málinu þar. Mér finnst, virðulegi forseti, að Bretar og Hollendingar hefðu alveg eins getað rétt út sáttarhönd og sagt: Þetta rúmast innan markmiða Brussel-viðmiðanna, til að þetta gæti gerst með þeim hætti.

Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að þegar menn eru enn að tala um þetta minnisblað verð ég bara að minna á að það er kannski vandi hæstv. fjármálaráðherra að hann lítur svo á að tveir einstaklingar geti gert skuldbindandi kröfu á Alþingi Íslendinga. Það er ekki þannig. Það verður að samþykkja þetta á Alþingi Íslendinga til að skuldbindingin taki gildi en ekki eitthvert minnisblað úti í bæ. Þetta er algjörlega (Forseti hringir.) fáránlegt.