138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti, hv. þingmaður. Þetta mál er allt mjög óþægilegt. Það er mjög óþægilegt að hér hrundi allt. En við lögum það ekki með því að gera allt sem við vinnum hér tortryggilegt. Við erum að reyna að vanda okkur hér, við erum að reyna að laga þetta laskaða þing. Það eru fleiri en Hreyfingin sem telja að þeir geti gert það.

Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að reyna að finna upp eitthvað nýtt. Það er einmitt það sem maður les alls staðar um. Það er talað um kosningalöggjöf, það á ekki að breyta kosningalöggjöf rétt fyrir kosningar. Það á helst ekki að breyta svona viðkvæmum hlutum þegar fólk er í uppnámi.

Það er alveg rétt að það er vont að notast við límdan stól en við verðum að notast við hann. Þess vegna verðum við að standa við hliðina á þessum stól og halda honum á löppunum en ekki reyna að brjóta hann niður eins og hv. þingmaður gerir.

Hv. þingmaður segir að það sé einmitt það sem hann sé að reyna að gera, að gera þingið trúverðugt. Nú verður það líklega í fimmta skipti sem ég segi þetta og ég ætla þá bara að gera það: Aðferðir hans og Hreyfingarinnar gera þingið ekki trúverðugt.