138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar bara að lýsa eftir því hvað það er í breytingartillögum Hreyfingarinnar sem gerir þingið ótrúverðugt. (SVÓ: Málflutningur þinn.) Það er ekkert í þeim breytingartillögum sem gerir þingið ótrúverðugt og það er ekkert í málflutningi mínum sem gerir þingið ótrúverðugt. Ég er einfaldlega að benda á það sem ég tel vera galla í þessu frumvarpi. Ef fólki finnst það vera merki um að reynt sé að gera þingið ótrúverðugt leyfi ég mér að benda á að alla þá daga sem þingið starfar gagnrýna menn frumvörp út og suður. Það er ekki þar með sagt að verið sé að gera þingið ótrúverðugt, það er bara málefnalegur ágreiningur um mál og það er málefnalegur ágreiningur um þetta einstaka mál. Þingmenn mega ekki fara á límingunum þó að þeir séu hér á Alþingi sem nýtur ekki trausts almennings. Það er eitthvað sem ég gerði ekki og ber enga ábyrgð á, það er eitthvað sem þingið sjálft ber ábyrgð á og þeir þingmenn sem voru hér áður en Hreyfingin kom inn á þing.

Við berum ekki ábyrgð á því sem gerðist hér áður en Hreyfingin kom inn á þing, það eru þeir þingmenn sem voru hér fyrr sem gera það. Að þingið skuli ekki njóta trúverðugleika nema 13 eða 17% þjóðarinnar segir ýmislegt um það. (Gripið fram í.) Það er spurning (Gripið fram í.) hvernig bæta má úr því. Ég er tilbúinn að leggja mitt á vogarskálarnar til þess að reyna að bæta úr því. Ég tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt að reynt sé að laga þann hluta ef við eigum að búa hér áfram við lýðræði og þingræði. Þess vegna er ég hér.