138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:56]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er einkennilegt að sitja undir þessari orðræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Sex manna þingmannanefndin á einmitt að vera sex manna með einum úr hverjum flokki og þingmanni utan flokka til þess að leggja áherslu á að hér er ekki um hefðbundna pólitíska nefnd að ræða. Rannsóknarnefndin á ekki að gera það sem lagt er til í breytingartillögum Hreyfingarinnar, það er einfaldlega ekki rétt. Hún á að gera marga aðra hluti.

Ég hef aldrei sagt að Alþingi muni sópa einhverju undir teppið eða að Alþingi muni skila af sér einhverri froðu. Ég hef sagt að frumvarpið bjóði upp á að það verði gert. Það hef ég eftir lögfróðum mönnum úti í bæ (Gripið fram í.) og þess vegna óskaði ég eftir því að frumvarpið yrði sent út til umsagnar og að utanaðkomandi gestir yrðu fengnir á fund nefndarinnar, en því var hafnað. Öllum eðlilegum vinnubrögðum í kringum þetta frumvarp hefur verið hafnað að mínu mati og þess vegna erum við að gagnrýna það.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna það fer svona óskaplega í taugarnar á þingmönnum en ég tel einfaldlega að hér sé um lagasetningu að ræða sem ber keim af þeirri lagasetningu sem viðgengist hefur á Alþingi árum og áratugum saman. Hún hefur verið þannig að við sitjum núna uppi með það að bankakerfið hrundi. Það varð siðferðisrof í þjóðfélaginu og það skapaðist gjá milli þings og þjóðar. Það er vegna starfa Alþingis, það er ekki vegna þess að ég gagnrýni Alþingi, ég leyfi mér bara að minna á það. Það er vegna Alþingis sjálfs, það er ekki vegna mín eða annarra þingmanna Hreyfingarinnar. Það er Alþingis að taka á því og það gerir það ekki með svona málflutningi.