138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:00]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hér í lok umræðunnar þakka fyrir ágætar umræður, oftast nokkuð málefnalegar. Ég verð þó að segja það vegna málflutnings hv. þm. Þórs Saaris að þau viðbrögð sem hann hefur fengið í umræðunni sýna að flestum þeim þingkonum sem tekið hafa til máls hér hefur ofboðið þessi málflutningur því að það kemur alltaf að þeim tímapunkti að fólki ofbýður. Fólk getur ekki setið undir því dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, að vera sakað um að starfa ekki af heilindum í vinnunni sinni, að svíkja land og þjóð. Þá kemur að því að fólk rís upp og segir: Hingað og ekki lengra.

Ég kaus það sem formaður allsherjarnefndar í þessari vinnu, og það veit hv. þm. Þór Saari mætavel, að freista þess að ná samstöðu milli allra þingmanna um þetta mál og þess vegna var það ekki tekið út fyrir jól. Það var tekið út milli jóla og nýárs, m.a. vegna þess að ég vildi freista þess að sem flestir væru með á málinu. Mér finnst það skipta máli, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og fleiri þingmenn hafa komið hér inn á, að það væri samstaða á þingi um að vanda sig við þetta mál, að vinna það vel.

Ef ég hefði viljað hefði ég getað farið lið fyrir lið í tillögur Hreyfingarinnar í fyrstu ræðu minni og tætt í mig, líkt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði, en ég kaus að gera það ekki. Ég trúi því enn þá, þrátt fyrir þann málflutning sem hv. þm. Þór Saari hefur haft uppi í dag, og treysti að sá fulltrúi Hreyfingarinnar sem sest í þingmannanefndina sem á að taka við vinnu rannsóknarnefndarinnar, muni starfa þar af heilindum og trúverðugleika. Þess vegna ákvað ég að fara ekki í slag við Hreyfinguna í þessari umræðu, sem ég hefði kannski átt að gera vegna þess að ekki stendur steinn yfir steini í þessum tillögum þeirra, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á. Það er búið að fara mjög málefnalega yfir breytingartillögur Hreyfingarinnar og bera þær saman við þær tillögur sem hér eru, ég þarf ekkert að endurtaka það. Síðan kemur hv. þm. Þór Saari upp og talar um að ekki sé rætt um málið á málefnalegan hátt. Ég verð þvert á móti að segja að mér finnst hafa verið farið yfir þetta mál á mjög málefnalegan hátt úr þessum ræðustóli. Menn hafa verið að vera að skylmast hér með rökum fram og til baka. Þó að hv. þm. Þór Saari sé kannski ekki sammála þeim sjónarmiðum sem sett eru fram er algjörlega af og frá að afgreiða það þannig að það séu ekki málefnaleg rök, það gengur ekki.

Hér er ítrekað talað niður til fólks í þessari umræðu. Hér er ítrekað talað um þriggja manna hóp nýrra þingmanna sem settust á þing en það gleymist að tala um þá 20 til viðbótar úr öðrum flokkum sem komu nýir inn á þing ásamt þessum þremur fulltrúum Hreyfingarinnar. Allir sem ekki tilheyra Hreyfingunni eru settir í þann hóp að vera pakk og hyski, eins og komið hefur fram hér í þessari umræðu og einn hv. þingmaður — ég hygg að það hafi verið hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir — orðaði það. Menn slá sér hér ítrekað upp á kostnað annarra.

Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu hér og í sjálfu sér bjóst ég ekki við því að umræðan stæði mikið lengur en í klukkutíma, enda var ekki gert ráð fyrir öðru en því að formaður allsherjarnefndar gerði grein fyrir álitinu og síðan mundi hv. þm. Þór Saari gera grein fyrir sínu máli. Hins vegar var málflutningur hv. þingmanns með þeim hætti að fólki sem sat hér úti í sal og hlustaði á þessa ræðu var bara gjörsamlega misboðið og þá sauð upp úr.

Í dag eða á morgun verður væntanlega kosin níu manna þingmannanefnd og eins og bent hefur verið á ítrekað er ekki stjórnarmeirihluti í þeirri nefnd. Það eru tveir frá hverjum flokki úr fjórum stærri flokkunum hér á þingi og einn frá Hreyfingunni. Ef út í það er farið er stjórnarandstaðan með meiri hluta en mér finnst það bara ekki skipta neinu máli. Það á ekki að líta á þessa þingmannanefnd sem einhverja meirihlutanefnd eða minnihlutanefnd. Við eigum að sameinast um að vinna þetta verk af heiðarleika. Ég skora hér með á Hreyfinguna að ganga til þessarar vinnu og þessa verks í takti með öðrum þeim þingmönnum sem þar munu setjast og að þau vinnubrögð verði ekki í samræmi við það sem endurspeglast hefur í umræðunni. Ég vona að menn beri gæfu til þess allir sem einn að vinna málið þannig að virðing Alþingis, sem mönnum er jú mjög tíðrætt um hér, aukist. Að við stöndum þá undir nafni sem hópur, 63 þingmenn, og þessi þingmannanefnd og getum á einhvern hátt endurheimt það traust sem því miður hefur dalað á Alþingi, að við getum endurvakið virðingu Alþingis.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Það er gríðarlega mikilvægt, ekki síst ef við á Alþingi Íslendinga ætlum að horfa til þess að skipa hér rannsóknarnefndir í framtíðinni, að það sé traust á þessari þingmannanefnd, að hún hafi trúnað allra og að niðurstaða þeirrar nefndar geti orðið grunnur að því að þetta traust verði endurvakið.