138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari veit mætavel að sú sem hér stendur hafnaði ekki beiðni hans fyrst og fremst vegna formsatriða. Ég gat þess hins vegar að í samþykktum um áheyrnarfulltrúa fastanefnda er ekki gert ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar geti kallað gesti fyrir fundi. Það var hins vegar ekki meginástæðan fyrir því að ég hafnaði þeim lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fram.

Eins og hv. þingmaður veit mætavel sagði ég við hann á þessum tiltekna fundi að ég sæi ekki sérstaka ástæðu til þess að kalla tiltekna blaðamenn, álitsgjafa, fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga eða ræðumenn hér úti á Austurvelli í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar fyrir nefndina, þennan 14 manna lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig, frekar en að kalla einhverja aðra tiltekna einstaklinga inn á fund. Það var ástæðan fyrir því að ég féllst ekki á að kalla þessa einstaklinga þarna inn en ekki þau formsatriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann fari rétt með staðreyndir hér úr ræðustóli Alþingis.