138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikið gleðiefni að við séum að ganga frá því hvernig við ætlum að taka á rannsóknarskýrslunni. Það verður vandasamt að vinna í þeirri þingmannanefnd sem mun taka við þessari stóru skýrslu. Það er þó heldur dapurlegt að við gátum ekki náð samstöðu meðal allra flokka um þetta mál, það eru þrír hv. þingmenn sem sitja hjá en þeir greiða þó ekki atkvæði á móti, sem er að mínu mati gott, en best hefði verið ef náðst hefði fullkomin samstaða um þetta mál.

Ég vona hins vegar, virðulegur forseti, af því að þetta mál er gríðarlega viðkvæmt og mikilvægt, að þessir hv. þingmenn sem kjósa að styðja ekki málið leggi sig fram með okkur hinum um að styðja við bakið á þingmannanefndinni sem mun starfa. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur sameiginlega (Forseti hringir.) til að styðja við hana svo niðurstaðan verði farsæl.