138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkur áskorun fyrir nýjan og reynslulausan þingmann að koma með hvelli inn í íslensk flokkastjórnmál og freista þess að leggja sitt af mörkum við að endurreisa íslenskan efnahag. Verkefnið er skýrt en samt virðast menn draga misjafnan lærdóm af því mikla kerfishruni sem varð á Íslandi fyrir rösku ári. Lærdómurinn sem blasir við mér er þessi: Skefjalaus frjálshyggja fær ekki staðist í mannlegu samfélagi og svo er hitt að eignum þjóðarinnar á ekki að koma í hendur þröngrar klíku sem kann ekki með fjöregg þjóðarinnar að fara. Stjórnvöld leyfðu fjárhættuspilurum að fara með þjóðarauðinn. Ábyrgðarlaus stjórnsýsla, mér liggur við að segja stjórnleysi, eins og viðgekkst hér á landi á síðasta áratug liðinnar aldar og fyrstu árum þeirrar nýju má aldrei endurtaka sig.

Nú hillir undir lok hinnar svonefndu Icesave-umræðu á Alþingi Íslendinga. Ekki óraði þann sem hér stendur fyrir því að þessi erlenda sletta ætti eftir að þvælast fyrir honum svo að segja daglega allt fyrsta ár hans á Alþingi. Víst hefur starfið í fjárlaganefnd verið mikið og umræðuefnið digurt að vexti. Það lætur nærri að ekkert annað þingmál hafi verið tekið jafnrækilega fyrir af nefndum Alþingis og einmitt það frumvarp sem hér er til umræðu og heimilar fjármálaráðherra að ábyrgjast lán til að greiða blessaða Icesave-skuldina.

Já, frú forseti, Icesave-skuldina, hver skuldar hana? Einkavinavæðing gömlu valdaflokkanna varð á endanum þjóðarskuld. Íslensk stjórnsýsla veitti heimildina, blinduð af dýrð hinnar tæru snilldar sem var einmitt sú að ná sér í lausafé af blásaklausu fólki úti í heimi af því að alvöru bankastofnanir í okkar heimshluta voru búnar að átta sig á því úr hverju spilaborg (Gripið fram í: Samfylkingin …) íslenskrar fjármálaútrásar var gerð. Kerfið sem á að verja almenning (Gripið fram í: Farðu rétt með.) tók áhættuna bönkunum til bjargar. — Hv. þingmaður, hlustaðu á alla ræðu mína. (Gripið fram í: Farðu rétt með.)

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp smánarsöguna, það fjárhagslega svigrúm sem nýríkir eignamenn fengu í íslensku hagkerfi. Landsbanki Íslands hf. stofnaði útibú í Bretlandi í mars 2005 og í Hollandi haustið 2007. Það var tilkynnt Fjármálaeftirlitinu en stofnun útibús í öðru landi var þó ekki háð sérstöku starfsleyfi frá stofnuninni. Ég endurtek, virðulegi forseti: Stofnun útibús í öðru landi var ekki háð sérstöku leyfi. Það mátti sem sé flytja út ásælni í gróða á ábyrgð heimalandsins. (Gripið fram í.) Það er eftirtektarvert að á svipuðum tíma og Icesave-snilldin byrjaði að mala gull keyptu Landsbankinn og aðrir íslenskir bankar erlenda banka sem urðu að dótturfélögum þeirra. Þeir lutu hins vegar eftirliti yfirvalda í viðkomandi löndum og innstæður í dótturfélögunum voru því tryggðar hjá tryggingakerfum þeirra. Það átti hins vegar ekki við um útibúin, eins og menn þekkja, þar sem innstæður þeirra voru tryggðar í íslenska kerfinu. Því er eðlismunur á dótturfélögum og útibúum, starfsemi dótturfélaga er tryggð í starfrækslulandinu en útibúin eru tryggð í upprunalandinu. Dótturfélag er með öðrum orðum sjálfstætt félag en útibú er rekið á ábyrgð þess félags sem á það, í þessu tilviki Landsbanka Íslands hf. á Íslandi. (Gripið fram í.) Við fall dótturfélags ber innstæðutryggingarsjóður þess lands þar sem það starfar ábyrgð á innstæðum samkvæmt reglum sem um hann gilda. Ábyrgðin af Icesave-skuldbindingunum í Bretlandi og Hollandi fellur á íslenska innstæðutryggingarsjóðinn en ekki tryggingarsjóði þeirra landa sem útibúin voru staðsett í. Af þessum sökum urðu Icesave-skuldbindingarnar til. (Gripið fram í: Kallarðu þetta regluverk?) Af linkind sinni leyfði kerfið ósómanum að þrífast, kerfið tók áhættuna. (Gripið fram í: Fjármálaeftirlitið.) Eðlileg krafa um að ábyrgðin yrði flutt út í formi dótturfélaga var aldrei sett fram af þeim þunga sem betur hefði verið og náði fyrir vikið aldrei fram að ganga. Með öðrum orðum, kerfið brást, útibúaformið þótti nefnilega of tafsamt í tilviki íslensku bankarisanna sem voru komnir í meiri fjárþörf en svo að kerfið mætti setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Við fall Landsbankans 6. október 2008 áttu fjölmargir kröfu í bú hans heima og erlendis. Kröfurnar eru af öllum toga, jafnt frá einstaklingum, félagasamtökum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þá sögu þarf ekki að orðlengja. Hver var þá tryggingin heima á Íslandi, landinu sem hafði lofað að ábyrgjast þessi viðskipti? Jú, tryggingin fólst í næsta tómum tryggingarsjóði sem vissulega hafði verið stofnað til samkvæmt Evrópulögum en gallinn var sá að eignir hans voru aðeins brot af þeim skuldbindingum sem hann stóð frammi fyrir. Hvað gera bændur þá? Jú, taka þeir ekki lán? Í þessu tilviki lá að vísu ljóst fyrir að um umtalsvert lán yrði að ræða eða sem nemur um helmingi af áætlaðri vergri landsframleiðslu 2009. Það er þetta lán sem allt heila Icesave-málið snýst vitaskuld um, (Gripið fram í.) hvenær og hvernig það verður greitt. Ekki hvort heldur hvernig — já, hvernig þjóðin sem með sínu eigin regluverki og gjörðum, sem leyfði ábyrgðinni að sitja eftir í eigin landi, ætlar að gera upp við lánardrottna sína í Bretlandi og Hollandi.

Virðulegi forseti. Icesave-lánasamningarnir byggjast á þeirri meginforsendu og íslensk stjórnvöld höfðu ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda bankahrunsins að þau mundu standa við skuldbindingar samkvæmt tilskipun evrópska regluverksins, að þau styddu Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta til þess ef þörf krefði. Í því sambandi má nefna bréf viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins dagsett 20. ágúst og 5. október 2008. (Gripið fram í.) Spurningin er enn þessi: (Gripið fram í.) Ætlum við sem íslensk þjóð að standa við þessar skuldbindingar? Getum við sem íslensk þjóð flúið afleiðingar gjörða okkar sem felast í ábyrgðarleysi, eftirlitsleysi, pólitískum glannaskap, klíkuskap og vinargreiða? Getum við sem íslensk þjóð látið sem ekkert hafi gerst? Getum við það, ætlum við að gera það? Nei, virðulegur forseti. Auðvitað komumst við ekki upp með það. Við urðum að semja, við verðum að semja, (Gripið fram í: Ekki segir …) um það er ekki lengur deilt. (Gripið fram í: Rangt.) Enn er þó vitaskuld deilt um hversu góðir lánasamningarnir eru sem íslensk stjórnvöld gerðu við Breta og Hollendinga. Um það er líkast til hægt að deila endalaust og gildir væntanlega einu hversu mörg álit sérfræðinga, hagfræðilegar samantektir og lögfræðilegar álitsgerðir eru fengnar upp á borð fjárlaganefndar, á endanum er Icesave-málið pólitískt úrlausnarefni. Það hefur verið það lengi og nú er tímabært að fá endanlega úr því skorið hver vilji Alþingis er í þessum efnum.

Að mínu viti hefur löggjafinn unnið mikið og ærið verk í þessu efni. Margra mánaða þrotlaus vinna er að baki sem fyrst og síðast hefur skilað ólíkum skoðunum á inntaki og þýðingu samninganna. Í þessu efni hefur stjórnarmeirihlutinn farið að öllum óskum minni hlutans á þingi sem óskað hefur eftir öllum mögulegum og ómögulegum skoðunum á (Gripið fram í: Rangt.) Icesave-málinu svo mánuðum skiptir. Þeim skoðunum hefur bara fjölgað en engin þeirra hefur reynst afdráttarlaust rétt og óumdeild. Þessar skoðanir verður varla hægt að sætta úr þessu. Enn eitt álitið mun ekki skipta neinu hvað það varðar, það verður aðeins enn eitt álitið. Nú er það aðeins hin pólitíska sannfæring sem getur ráðið framhaldinu og nú er ekki spurt um besta kostinn í stöðunni heldur þann skásta.

Því hefur mjög verið haldið á lofti á síðustu vikum að Icesave-samningarnir, með þeim efnahagslegu og lagalegu fyrirvörum sem sannarlega eru komnir inn í samninginn að kröfu Alþingis Íslendinga, séu óskýrir og feli í sér algjöra óvissu. Þessu er ég ekki sammála. (Gripið fram í: Nei, þú leggur sjálfur mat á það.) Fyrst ber að nefna að það er kristaltært um hvað er verið að semja, sjálfa lausn Icesave-deilunnar, hvað, hvenær og hvernig greiða á skuldina til baka. Í annan stað liggur upphæðin fyrir jafnt í evrum og pundum. Þá leikur heldur enginn vafi á því að lánið er til 15 ára og það liggur algjörlega ljóst fyrir að vextir þess eru nákvæmlega 5,55%. Fullljóst er líka að enginn hefur getað bent á betri vaxtakjör. Það er heldur engum vafa undirorpið að Íslendingar munu ekki borga af höfuðstól lánsins fyrstu sjö árin og loks liggur ljóst fyrir hvað muni gerast árið 2024 ef landsmenn geta ekki borgað upp lánið fyrir þann tíma. (Gripið fram í: Hvað gerist?)

Þetta er skýr samningur. Ég á fyrir vikið næsta auðvelt með að taka afstöðu til hans. (Gripið fram í.) Það sem er hins vegar í fullkominni óvissu er hvað gerist ef samkomulaginu verður hafnað eða málið dregið mjög á langinn eins og mér sýnist vera vilji margra hér í þingsal. (Gripið fram í: Það gerist ekki neitt.) Þá liggur líka margt skýrt fyrir, virðulegur forseti, sem sumir vilja alls ekki hlusta á. Verði frumvarp það sem hér er til umfjöllunar ekki samþykkt eða verði dráttur á lyktum Icesave-deilunnar er hætta á að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Gripið fram í: Hún hefur þegar farið fram.) sem nú stendur yfir tefjist og þar með full afgreiðsla lána frá sjóðnum og vinaþjóðum. Samþykkt fyrstu endurskoðunar áætlunarinnar var án efa gerð í trausti þess að málið yrði til lykta leitt. Verði það ekki raunin má telja öruggt að stjórn sjóðsins líti svo á að Ísland hafi ekki staðið við fjármögnun áætlunarinnar og fyrirtaka á annarri endurskoðun efnahagsáætlunarinnar muni frestast.

Sama er að segja um lánveitingar Norðurlandanna. Fyrsta greiðsla lána þeirra losnaði þegar endurskoðuð efnahagsáætlun hafði verið samþykkt í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fyrir lá nýr samningur um Icesave þar sem þau skilyrði sem Alþingi hafði sett voru tekin til greina. (Gripið fram í.) Verði samningurinn ekki staðfestur má gera ráð fyrir að Norðurlöndin endurmeti stöðuna. Sterkar vísbendingar um það komu m.a. fram í bréfi danska fjármálaráðuneytisins til fjármálanefndar danska þingsins frá 23. nóvember í ár þar sem segir m.a. að gert sé ráð fyrir að útborgun lánsins fari fram í þremur áföngum í samræmi við fullnægjandi framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að hin svonefndu norrænu skilyrði séu uppfyllt. Það verður að ætla að með þessu sé vísað til þeirra skilyrða sem fram koma í bréfi Norðurlandanna frá 15. maí 2009 en eitt þeirra skilyrða er að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, m.a. hvað innstæðutryggingarnar varðar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Afleiðingin af því að fresta afgreiðslu endurskoðaðrar efnahagsáætlunar eða frestunar á frekari greiðslum lána frá Norðurlöndunum yrði án efa sú að ekki yrði hægt að styrkja gjaldeyrisvaraforðann sem er nauðsynleg forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Einnig mundi slík töf draga úr tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda bæði innan lands og utan og lánshæfismatsfyrirtæki mundu þá að öllum líkindum lækka lánshæfismat ríkissjóðs og þar með hafa neikvæð áhrif á möguleika innlendra aðila til endurfjármögnunar. Minnkandi trúverðugleiki og tafir á afnámi gjaldeyrishafta mundu auk þess auka þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar sem aftur leiðir til vaxandi verðbólgu og veldur því að Seðlabankinn hefur minna svigrúm til vaxtalækkana og gæti jafnvel þurft að hækka vexti. Allt eru þetta samverkandi þættir sem torvelda endurreisn atvinnulífsins og viðnám gegn kjararýrnun og atvinnuleysi. Allt þetta mál er reyndar prófsteinn á hið nýja Ísland, hvernig það ætlar að rísa úr rústunum og hvert orðspor þess verður út á við. Lánasamningurinn er skýr og hann sjálfur er grundvöllur endurreisnarinnar.

Virðulegi forseti. Miðað við þá valkosti sem íslenska ríkið stendur frammi fyrir í þessu máli er nauðsynlegt að ljúka málinu með samþykkt þessa frumvarps. (Gripið fram í: Rangt.) Svo vitnað sé í framhaldsnefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Ráða má af álitsgerðum bresku lögmannsstofanna Ashurst og Mishcon de Reya að verði frumvarpinu hafnað geti það leitt til ráðstafana af hálfu breskra og hollenskra yfirvalda sem óvíst er hvernig ljúki. Frekari gögn hafa verið lögð fram á fyrri stigum þessa máls sem hníga í þessa sömu átt. Hinar efnahagslegu og pólitísku afleiðingar sem það hefði í för með sér mundu hægja mjög á endurreisn íslensks efnahagslífs með enn meiri og alvarlegri afleiðingum en þegar hafa orðið vegna efnahagshrunsins.“

Kannski einhverjir hér inni vilji einmitt það?

Virðulegi forseti. Samningurinn er skýr og sömuleiðis afleiðingarnar af því að ganga ekki að honum. (Gripið fram í.) Þingmenn hafa haft marga mánuði til að vega og meta kosti og galla samningsins. Lengra verður ekki gengið í þeim efnum. Við sem erum hér inni erum öll læs. (Gripið fram í: Engir kostir.) Nú greiðum við atkvæði eftir bestu sannfæringu okkar. Það er komið að okkur þingmönnum að skera úr um framhald þessa máls og það skulum við gera helst í dag og ekki síðar en á morgun.