138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er útilokað að fara í gegnum allar hinar órökstuddu staðhæfingar sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt hér fram. Það sem mér mislíkaði hvað mest er sú staðreynd að þingmaðurinn reynir ítrekað að breyta sögunni og gleymir algjörlega að minnast á þátt Samfylkingarinnar í öllu hruninu. Mig langar að benda á nokkur dæmi.

Hverjir voru á vaktinni þegar hluti Icesave-samninganna var stofnaður? Samfylkingin. (Gripið fram í: Rétt.) Hverjir gátu breytt útibúum Landsbankans í dótturfélög eins og þingmaðurinn minntist á? Jú, Samfylkingin. Það var rætt en ekki gert. Hverjir stjórnuðu Fjármálaeftirlitinu sem létu þetta allt viðgangast og þingmaðurinn eyddi stórum þætti í? Var það ekki Samfylkingin? (Forseti hringir.) Hvað með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Hún er búin að hrekja allar fullyrðingar núverandi ríkisstjórnar (Forseti hringir.) en það er eins og hún og hennar orð séu ekki til. (Forseti hringir.) Hvað segir þingmaðurinn við því?