138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir þessar ágætu spurningar. Að mínu viti var ég ekkert að draga úr þætti Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég fór yfir málið og það má ljóst vera af máli mínu hverjir voru ráðherrar og hverjir voru við stjórn þegar þetta gerðist. Ég þarf ekkert að draga undan. Það bera allir einhverja ábyrgð í þessu máli, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og jafnvel Vinstri grænir. Framsóknarflokkurinn var á vakt þegar Icesave-málinu var hrundið af stað, þú veist það vel sjálfur, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson.

Hvað varðar álit Ingibjargar Sólrúnar var farið yfir það rækilega hér í gær, m.a. af Steingrími J. Sigfússyni. Hennar skoðun er ljós. Það er enn ein skoðunin í þessu máli (Gripið fram í.) en það er eins og með aðrar skoðanir í þessu máli, þær eru ekki endilega réttmætar eða hinn endanlegi sannleikur. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (SVÓ): Forseti vill beina því til hv. þingmanna að beina orðum sínum til forseta þegar það á við .)