138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Ég biðst afsökunar á að hlaupa aðeins á mig.

Það eru fleiri spurningar sem mig langar til að beina að hv. þingmanni og ágætt að hann gengst við því að Samfylkingin hafi verið hér á vaktinni. Það er líka athyglisvert að halda því til að haga að allar þær stóru skuldbindingar sem við stöndum frammi fyrir urðu til á vakt Samfylkingarinnar, það er því hún sem ber hvað mesta ábyrgð.

Það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í og það er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telur í áliti sínu ótvírætt að Brussel-viðmiðin hafi verið svikin í samningaviðræðunum. Nú kemur þingmaðurinn og segir að það hafi aldrei verið farið eins vel yfir nokkurt mál. Bíddu nú við, skiptir afstaða hennar engu máli? Ég vil fá að heyra afstöðu hans varðandi það.

Mig langar líka til að spyrja hann, vegna þess að nú hafa færustu sérfræðingar komið fram og sagt að fyrirvararnir hafi að engu orðið og öll sú vinna sem fjárlaganefnd hefur lagt á sig er að engu orðin, skiptir það heldur engu máli?