138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hafna órökstuddum dylgjum hv. þingmanns um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi haldið því fram að Brussel-viðmiðin hefðu öll verið færð út úr þessum samningum, það gerði hún ekki í máli sínu, (Gripið fram í: Jú.) það gerði hún bara klárlega ekki, hún gerði það ekki. (Gripið fram í: Jú.)

Hér kemur þingmaðurinn hins vegar upp og segir að færustu sérfræðingar hafi komið fram með þessa og þessa skoðunina. Það vill nefnilega svo til að hv. þingmaður velur einmitt sína færu sérfræðinga í málinu sem eru kannski með algjörlega andstæðar skoðanir við þá sem aðrir taka undir með. Þannig hefur þetta mál allt saman verið. Það eru skiptar skoðanir um það, Framsóknarflokkurinn velur sína sérfræðinga, aðrir flokkar velja sína sérfræðinga. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn …) Á endanum er það pólitísk sannfæring sem ræður málinu, (Gripið fram í.) á endanum er það ekki enn eitt álit einhverra nýrra sérfræðinga sem veldur því hvernig þetta mál fer.