138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp í mikilli vinsemd og skal sýna hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni mikla vinsemd en ég ætlaði einmitt að byrja á því að óska eftir því að við gætum átt málefnalegar viðræður og rökrætt hér smásamtal um þetta mál.

Ég vil byrja á að óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa pólitíska sannfæringu í málinu vegna þess að ég held að hann sé fyrsti þingmaðurinn sem ég heyri í í umræðunni allri sem segist hafa pólitíska sannfæringu fyrir því að við eigum að samþykkja málið. Aðrir sem hingað hafa komið virðast hins vegar láta leiða sig af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna til að ætla að samþykkja þetta mál og sumir hverjir, skilst mér, að hafi ekki kynnt sér gögn málsins.

Ég veit að hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og mig langar að spyrja hvort sú staðreynd hafi verið rædd að bæði seðlabankastjóri Evrópu og utanríkisráðherra Hollands hafi lýst því yfir að innstæðutryggingarkerfi EES væri ekki ætlað að standa undir allsherjarbankahruni. Var þetta einhvern tíma rætt í fjárlaganefnd? Vegna þess að þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á það hvort okkur ber yfir höfuð að ganga að þessum samningum.