138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni um hvort hann greiddi þá atkvæði gegn 1. mgr. 2. gr. og ég óska eftir því að hann svari því, því að það er mjög áhugavert ef hann er svona sannfærður um að við eigum að greiða.

Hann segir að við greiðum þar til lánið er uppurið. Hvenær í ósköpunum verður það? Það getur vel verið að við getum aldrei borgað annað en vextina þannig að lánið verði ævarandi og íslensk þjóð verði fátækari og fátækari með hverjum deginum. Er það það sem hv. þingmaður vill, er það virkilega það sem hann vill?

Síðan segir hann að áhöld séu um hvort þetta séu nauðasamningar eða ekki og menn geti rifist um hvað menn kalla það. Samt nefndi hann þá aðila sem hafa verið að kúga okkur, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem með því að fresta aftur og aftur svokallaðri hjálp sinni við íslenska þjóð, með því var hann að kúga okkur til að samþykkja þessa samninga og sem hv. þingmaður ætlar að gangast undir að samþykkja. Það er alveg ótrúlegt.

Hann segir líka að Norðurlandalánin muni ekki koma. Það er líka kúgun.