138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir hans orð. Ég er ekki að afvegaleiða neitt sem hér var sagt í gær, ég hef prentað út orð fyrir orð ræðu hv. þingmanns og þar kemur þetta skýrt fram: Við vissum þetta þá um nóttina að fyrirvararnir yrðu ekki teknir gildir. Samt var 2. mgr. 1. gr. allan tímann forsendan fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að Bretar og Hollendingar skyldu annaðhvort fallast á ríkisábyrgðina eða ekki. Með það fór fjárlaganefnd fram með málið fyrir þingið og út af þessu ákvæði náðist sú samstaða í sumar sem þó varð um þessa fyrirvara. Við eyddum mörgum dögum í að ræða það hvort fyrirvararnir væru hluti af Icesave-samningnum eða hvort Bretar mundu taka fyrirvörunum sem viðaukasamningi.

Út af því komst þetta inn í lögin, setningin sem ég vísaði í. Þetta á ekki að koma þannig hér inn núna milli jóla og nýárs, inn í umræðuna í þinginu, eins og þessu hafi verið smellt þarna inn síðasta kvöldið áður en frumvarpið var lagt fram til lokaafgreiðslu og samþykktar hér. Þarna eiga sér stað blekkingar. Það kom ekki heldur fram í gær í svari hv. þm. Guðbjarts Hannessonar hvort þetta hefðu verið prívatpóstar eða hvort þetta hefðu verið embættismannapóstar. Hann sagði, með leyfi forseta:

„… ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því.“

„Hvað hefði ég annað átt að gera?“ Þetta lýsir örvæntingu þingmanns, þetta lýsir örvæntingu formanns fjárlaganefndar 28. ágúst þegar atkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) um Icesave-samningana var í þinginu og ríkisstjórnin hélt að sjálfstæðismenn ætluðu að vera með á málinu sem síðar kom í ljós að varð ekki.