138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa ítrekað ræðu mína. Það sem ég var að gera í andsvari mínu var að reyna að skýra út hvað lá að baki og ég harmaði það að það væri túlkað svo að þarna væri um einhver leyndarskjöl að ræða eins og gjarnan er notað í umræðunni. (Gripið fram í.) Ég var bara að reyna að skýra það út að ég fékk persónulegar ábendingar. Það voru málsmetandi aðilar, ekki í íslenska stjórnkerfinu heldur erlendis, sem voru að ráðleggja mér persónulega.

Ég talaði líka um, og það á hv. þingmanni að vera kunnugt um, að þegar við vorum að ljúka þessu máli með lögfræðingum sem unnu með okkur textann stóðum við í samningaviðræðum alveg fram undir morgun eða fram eftir nóttu um hvað ætti að koma inn í textann. Raunar var það eftir að lögfræðingarnir voru farnir sem við vorum með síðustu breytingarnar, m.a. um það að ríkisábyrgðin félli niður árið 2024. Við vorum með þennan skýlausa fyrirvara, hann kom inn í textann á síðustu stundu.

Framsóknarflokkurinn var að vísu ekki (Forseti hringir.) aðili að þessum umræðum á þeim tíma en þetta á að vera ljóst og ég vil bara að það sé upplýst að svona gekk þetta fyrir sig. Málið var afgreitt samhljóða úr fjárlaganefnd og ég hélt auðvitað (Forseti hringir.) þeirri trú og trausti að þetta mundi ganga en því miður varð það ekki niðurstaðan.