138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir segir að margt sé að koma fram í dagsljósið. Eitt hefur a.m.k. komið fram í dagsljósið og það er að hv. þingmaður sem hér talaði áðan sker sig frá öllum öðrum þingmönnum með orðfæri sínu og yfirlýsingum. Hv. þingmaður hefur gengið lengst allra sem hér hafa talað í því að nota köpuryrði og digur svigurmæli um ráðherra og stjórnarliða. Hún hefur í þessum umræðum kallað þá landráðamenn, hún hefur kallað þá lygara og enn er hún við sama heygarðshornið og er að tala um blekkingameistara. Hún segir að þingið hafi verið blekkt vegna þess að það hafi komið í ljós að strax nóttina sem þetta var samþykkt hafi hollenska og breska ríkisstjórnin hafnað þessum fyrirvörum. Það í sjálfu sér getur ekki annað verið en vitleysa en kannski helgast málflutningurinn af því að hún hefur það fyrir sið að kynna sér málin ekki neitt. Hv. þingmaður kemur hingað og veður elginn, talar út og suður en hefur bersýnilega ekki kynnt sér grunnatriði málsins.

Hollenska og breska ríkisstjórnin gætu ekki hafa hafnað fyrirvörunum strax um nóttina vegna þess að staðreyndin er sú að þeir tóku upp mesta, ekki alla, fyrirvarana. Náttúruauðlindafyrirvarinn … (Gripið fram í.) Ef ég mætti tala fyrir gjamminu í hv. þingmanni, náttúruauðlindafyrirvarinn, friðhelgisfyrirvarinn komnir inn í samninga. Brussel-viðmiðin komin inn í samninga. Dómstólafyrirvarinn er sterkari eftir þetta en áður. Menn geta deilt um Ragnars Halls-ákvæðið en hvað breyttist þar? Jú, vísun í EFTA-dómstólinn er tekin úr greinargerð og sett inn í ákvæðið sjálft. Það sem út af stendur er tvennt: Það þarf að greiða vexti jafnvel þó að þeir yrðu fyrir ofan hið efnahagslega hámark. Dómur Seðlabankans? Engar líkur á því eða hverfandi líkur á því að svo verði nokkru sinni. Ef eitthvað stendur út af 2024 þarf að greiða það. Það var alltaf skilningur stjórnarmeirihlutans, m.a. þess sem hér stendur, og hann sagði það hér.