138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið held ég að hæstv. utanríkisráðherra dreymi oft um að ég sé dóttir hans því að hann langar svo óskaplega til að siða mig (Gripið fram í.) til hér í þingsal. Fyrir jól eyddi hann heilu kvöldi í það að reyna að kenna mér hvaða íslensku orð ætti að nota í þessum ræðustól. Þetta er náttúrlega spurning, frú forseti, í hvaða ferli svona mál eru, þegar hálfpartinn er verið ávíta mann af öðrum þingmönnum fyrir orðfæri í ræðustól. Á meðan starfandi forseti á hverjum tíma gerir ekki athugasemdir við orðfærið er það hreint með ólíkindum að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera að taka sér forsetavald líka í umræðunni.

Ég þarf ekki að fara yfir þau orð sem hæstv. utanríkisráðherra fór yfir. Hollendingar og Bretar höfnuðu þessum samningum. Fyrirvararnir sem settir voru inn í lögin í sumar eru ekki inni í nýja frumvarpinu, færð hafa verið mörg og sterk og góð rök fyrir því, þrátt fyrir það að ríkisstjórnin líti svo á að allt sem stjórnarandstaðan hafi fram að færa séu árásir en ekki rök með íslensku þjóðinni. Hann verður að eiga það við sig hvað ríkisstjórnin heldur að sé inni í frumvarpinu. Það er búið að kollvarpa fyrirvaralögunum en þau eru enn í gildi. Ég minni hæstv. utanríkisráðherra á það.

Þar sem hann var líka að tala um að Bretar og Hollendingar hefðu ekki getað hafnað þessum fyrirvörum, ég sagði það ekki, það var búið að gefa þá línu að þeir mundu aldrei samþykkja þá. Hæstv. forsætisráðherra gat ekki svarað því hér einhvern tíma í fyrirspurnatíma á Alþingi hvort sú vinna hefði verið látin fara fram að kynna þessi mál fyrir Bretum og Hollendingum. (Forseti hringir.) Svarið var nei, því að ríkisstjórnin vissi að þeir voru búnir að hafna þeim fyrir fram.