138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir hennar spurningu. Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér, í umræðum í dag og í gær, hvers vegna samfylkingarþingmenn og ríkisstjórnin afneiti þeim orðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að allt hafi verið núllstillt á þessum tíma. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessum orðum hennar því að hún var hvorki meira né minna en utanríkisráðherra þegar þessir atburðir áttu sér stað.

Ég veit ekki hvað hefur gerst en svo virðist sem sú þingsályktunartillaga sem samþykkt var á þinginu haustið 2008, með hinum svokölluðu Brussel-viðmiðum, hafi verið hunsuð. Ég man eftir því þegar ég sat fund í fjárlaganefnd að þar kom stjórnskipunarfræðingur og sagði: Það verður þá að líta á þessa þingsályktunartillögu sem eitt einstakt atvik út af því að hér varð bankahrun, afgreiðsla þingsályktunartillögu eins og þessarar á þingi sem verður að framfylgja. Þarna var hún með öðrum orðum að segja að þingsályktunartillögunni með Brussel-viðmiðum var ekki framfylgt af framkvæmdarvaldinu.

Þannig hefur þetta mál rakið sig, mistök á mistök ofan. Send út samninganefnd. Ég ætla ekki að fjalla um persónur og leikendur í þeirri nefnd en svo virðist vera að sú samninganefnd hafi byggt á algerlega misskildum forsendum, hafi ekki skilið hlutverk sitt, eða e.t.v. fékk hún ekki betri upplýsingar um hlutverk sitt. En samninganefndin kom heim með samning sem var kallaður „glæsileg niðurstaða“ og við sjáum í hvaða vinnu þingið hefur þurft að fara síðan þá. Vonandi hefur skynsemin ekki alveg yfirgefið Samfylkinguna en það er alveg með ólíkindum að stjórnmálaflokkur skuli hafna fyrrum leiðtoga sínum í nútíðinni með þessum hætti.