138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef einnig ákveðnar áhyggjur af því að nú er þetta mál ein stærsta milliríkjadeila Íslandssögunnar og skipt var um ríkisstjórn. Og svo virðist sem núverandi ráðherrar hafi á engan hátt sett sig inn í það hver staða málsins var. Svo virðist sem núverandi fjármálaráðherra hafi ekki sest niður með fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar til að ræða það hvernig málið væri statt og hvernig á því hefði verið haldið. Þetta er eitthvað sem veldur mér miklum áhyggjum.

En það er annað atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, og það varðar jafnframt það sem kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, og það varðar tilskipunina frá Evrópusambandinu. Ég hef haldið því fram og ýmsir menn hafa sagt að henni hafi ekki verið ætlað að standa undir allsherjarbankahruni. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson lýsti því yfir að þetta væri einstakt afmarkað mál, þetta Icesave-mál, snerist bara um Landsbankann en ekki allsherjarbankahrun. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður er sammála eða er þetta einangrað tilfelli eða er þetta í rauninni hluti af því að bankakerfið hrundi?