138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa viljað afgreiða Icesave-málið. Alveg frá upphafi, alveg frá því að málið kom fram fyrst í sumar, var lögð á það áhersla að þetta mál yrði afgreitt fljótt og örugglega. Ásetningur ríkisstjórnarflokkanna alveg frá fyrsta degi var sá að það ætti engu að breyta. Það var alveg sama hvernig við ræddum þessi mál í sumar, stöðugt var reynt að móast við og koma í veg fyrir að hægt yrði að ná fram einhverjum breytingum.

Það sem gerðist hins vegar var það að ríkisstjórnin missti tök á þessu máli og hafði ekki lengur vald á því hvernig því vatt fram. Í þeirri stöðu tók Alþingi til sinna ráða og breytti málinu svo mikið að í raun og veru má segja að hvorki tangur né tetur hafi staðið eftir af því máli sem upphaflega var lagt fram. Þetta er mjög athyglisvert en þetta er alveg í samræmi við það sem við höfum heyrt á síðustu dögum. Það er alveg sama hvað hefur komið upp á síðustu vikum í meðferð málsins á Alþingi. Því hefur stöðugt verið haldið fram af forustu fjárlaganefndar, af forustu ríkisstjórnarinnar, að ekki væri ástæða til að hlusta eftir einu eða neinu af því sem þar væri verið að leggja fram. Allt væri þegar þekkt, það væri búið að fara yfir málið, það væri búið að skoða þetta. Svo forstokkaðir virðast forustumenn ríkisstjórnarinnar og forustumenn fjárlaganefndar vera, og brynjaðir fyrir nýjum röksemdum, að þeir yppta öxlum. Áhættumatið, það er ekki nema 10% áhætta og við skulum bara taka sénsinn. Gagnrýni innlendra lögfræðinga, allt saman misskilningur.

Þetta er alveg til samræmis við það sem gerðist fyrr í sumar. Þegar fram kemur mjög greinargott álit frá hinni kunnu bresku lögfræðistofu, Mishcon de Reya, var líka farið í það að reyna að rægja þá stofu og gera lítið úr henni eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði. Þetta er 72 ára gömul lögfræðistofa sem hefur unnið á alþjóðlegum vettvangi og hefur m.a. fengið viðurkenningu í Bretlandi fyrir það að vera talin í hópi bestu vinnuveitenda á sínu sviði þar. Þetta segir okkur hvernig menn hafa verið að reyna að vinna þetta mál og reyna að lítillækka þær röksemdafærslur sem bent hefur verið á.

Þessi umræða hefur hins vegar líka leitt ýmislegt jákvætt í ljós vegna þess að m.a. er búið að hrekja allt það sem búið var að segja og halda fram af hæstv. ráðherrum, bæði utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, um að við höfum á einhvern hátt verið bundin af því fræga minnisblaði sem gert var við Hollendinga á síðasta hausti. Nú hefur það komið á daginn að þetta var allt alrangt og meira að segja hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi það í orðaskiptum við mig fyrir hálfum mánuði eða svo að Íslendingar hefðu aldrei litið þannig á að þetta væri neinn samningsgerningur og hefðu stöðugt verið, alveg frá síðasta hausti, að reyna að útskýra þetta fyrir samningsaðilum okkar, bæði Bretum og Hollendingum. Í raun og veru talar sagan sínu máli.

Við vitum þegar hvert er mat bæði hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra á þessu máli. Þeir hafa með mjög afgerandi hætti lýst því yfir að búið hafi verið að núllstilla málið með því að Alþingi hafi á sínum tíma tekið ákvörðun á grundvelli samþykktar að ganga til nýrra samningaviðræðna og auðvitað talar sagan sínu máli. Sú ákvörðun sem tekin var 5. desember í fyrra sagði okkur það að við litum ekki þannig á að við værum bundin af þessu minnisblaði og það var í raun og veru hinn sameiginlegi skilningur vegna þess að það var sameiginlegur skilningur sem leiddi til Brussel-viðmiðanna og það var á grundvelli Brussel-viðmiðanna og síðan samþykktar Alþingis að við fórum til nýrra samningaviðræðna. Ef það hefði verið þannig að það hefði verið kominn á samningur með þessu minnisblaði, hvers vegna vorum við þá að fara í nýjar samningaviðræður? Það blasir við hverjum manni og það er ótrúlegt að ræða þurfi þau mál dag eftir dag. Þetta mál er augljóst öllum sem á það horfa og það er undarlegt að ræða þurfi það hvað eftir annað bara vegna þess að einhvers konar pólitískur spuni er í gangi sem gengur út á það að reyna að halda því fram að menn hafi verið bundnir af þessum samningi en samt sem áður neyðast þeir til að viðurkenna, eins og hæstv utanríkisráðherra, að svo var ekki. Auðvitað héngu Bretar og Hollendingar á þessu. Hvað annað? Þeir héngu á þessu máli eins og hundar á roði. Lönd sem voru í þeirri stöðu sem þau voru, með lélega samningsstöðu efnislega, urðu að grípa til hvers hálmstrás sem þeir gátu látið sér detta í hug og þetta var einn hluti af því.

Það hefur verið spurt um það hvað gerist ef við höfnum þessu máli eða tökum það upp með einhverjum öðrum hætti eins og hægt er að gera. Það sem gerist er það að við tökum þetta mál eins og hvert annað fullvalda ríki og ræðum það við samningsaðila okkar ef okkur býður svo. Það er m.a. það sem lögfræðistofan Mishcon de Reya ráðleggur í þessu sambandi. Þeir segja að það að fara dómstólaleiðina geti verið tvíeggja sverð og það blasir auðvitað við, það vita það allir að dómsmál geta farið á báða vegu. Það eru engin ný sannindi í því. En þeir segja hins vegar: Hægt er að fara þessa leið með uppbyggilegum hætti, eiga viðræður við Hollendinga og Breta að nýju vegna þess að til þess standa skýr efnisleg rök. Það er auðvitað það sem við getum gert. Þær viðræður munu þá leiða það í ljós hvort það er samningsgrundvöllur og ef svo reynist ekki fer málið að sjálfsögðu sína leið fyrir dómstóla og þá eru það Bretar og Hollendingar sem verða að sækja þann rétt fyrir íslenskum dómstólum á grundvelli íslenskra lagafyrirmæla. Þannig gerist þetta í heimi réttarríkjanna. Þannig mundi þetta gerast í samskiptum Íslendinga, Hollendinga og Breta, alveg sama hvort við værum að hafna málinu eða værum að fara þá leið sem breska lögfræðistofan leggur til, að við ræðum þessi mál einfaldlega á grundvelli þess samnings sem þegar hefur verið gerður til að freista þess að ná fram tilteknum breytingum á því samkomulagi.

Það er sagt sem svo að ef við ekki afgreiðum þetta hér og nú muni landið lokast af. Ísöld, var einu sinni sagt. Ísöld eða frostaveturinn mikli, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði. Þetta eru auðvitað allt saman órökstuddar yfirlýsingar sem gagnast þó ekki mikið í þessari umræðu. Ég vil í þessu sambandi minna á að það liggja fyrir svardagar forustumanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna um það að þeir muni ekki láta afgreiðslu á lánum frá þessum stofnunum og þjóðum ráðast af lyktum Icesave-málsins. Hvernig mætti það enda vera að alþjóðleg stofnun annars vegar og vinaþjóðir og frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum hins vegar færu að blanda sér með beinum hætti í tvíhliða deilur þiggja ríkja og hamla því að við gætum átt möguleika á því að fá þá eðlilegu lánafyrirgreiðslu sem öll efni standa til? Það er fráleitt. Og telja menn kannski að Evrópusambandið mundi gera það? Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa báðir lagt lykkju á leið sína til að tala það niður að Evrópusambandið sé líklegt til þess og hafi verið að sýna klærnar gagnvart okkur.

Það er líka talað mikið um gengisáhættuna ef við ekki samþykkjum þetta frumvarp hér og nú og hvað muni gerast með gengið. Það er sagt að ef við ekki afgreiðum Icesave-samkomulagið fyrir áramótin muni gengið lækka. Mér finnst eins og ég sé búinn að heyra þennan söng áður. Var þetta ekki líka sagt varðandi Evrópusambandið? Var þetta ekki sagt varðandi breytingarnar á yfirstjórn Seðlabankans? Var ekki sagt að gengið mundi styrkjast þegar við fengjum nýtt fjárlagafrumvarp? Svo var okkur sagt að það mundi líka styrkjast við gerð nýs samnings við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Má ég benda hv. þingmönnum stjórnarflokkanna á að það er búið að gera slíkan samning. Það er búið að gera samning við Hollendinga og Breta. Ríkisstjórnin hefur undirritað slíkan samning og er þá ekki hægt að líta þannig á að það sé nægileg trygging. Eða er það þannig, að mati þingmanna stjórnarflokkanna, að samningsaðilar okkar treysti því ekki að ríkisstjórnin hafi það vald á þessu máli að hún geti fullnustað þennan samning? Er það það orðspor sem fer af íslensku ríkisstjórninni, að henni sé ekki treystandi til að gera slíka samninga? Samningurinn liggur fyrir en nú er það hins vegar í höndum okkar þingmanna að taka ákvörðun um hvort við viljum afgreiða hann en ríkisstjórnin hlýtur að bera ábyrgð á þessu máli.

Við skulum síðan skoða málið dálítið betur efnislega. Forsendan fyrir því að hægt sé að standa undir afborgunum og vöxtum af Icesave-samkomulaginu, samkvæmt mati Seðlabanka Íslands, er sú að hér verði vöruskiptaafgangur miklu meiri en við höfum nokkru sinni séð í sögu okkar lýðveldis, nokkru sinni fyrr. Hvernig komast menn að þessari niðurstöðu? Jú, menn komast að þeirri niðurstöðu með því að segja einfaldlega: Gengi krónunnar verður svo lágt. Forsenda Icesave-samningsins er með öðrum orðum lágt gengi íslensku krónunnar og þá skilur maður auðvitað röksemdafærsluna því að með lágu gengi íslensku krónunnar gerist tvennt: Útflutningsverðmætið eykst, útflutningstekjurnar aukast, en lága gengið gerir það líka að verkum að lífskjör dragast saman, innflutningur minnkar og með slíkum forsendum er auðvitað hægt að reikna sig upp í það að við getum staðið undir þessum skuldbindingum.

Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem voru gefin út fyrir fáeinum vikum, var gerð gengisspá út spátímabilið og það er athyglisvert að gert er ráð fyrir því að ef eitthvað er muni gengið lækka á komandi árum. Enn athyglisverðara er að skoða það í ljósi þess að þegar borið er saman við peningamálaskýrsluna frá ársfjórðungnum á undan þá er gert ráð fyrir því að lækkunin verði enn þá skarpari, við verðum með enn þá lægra gengi en ætlað var á þriðja ársfjórðungi á þessu ári. Þetta segir okkur allt sem segja þarf þannig að þetta er hrein blekkingaleikur sem verið er að hafa uppi, um að Icesave-samkomulagið muni styrkja gengið, því að forsenda Icesave-samkomulagsins er lágt gengi út allt tímabilið sem spá Seðlabanka Íslands nær yfir.

Ég hef skoðað skýrslu Mishcon de Reya mjög ítarlega, lesið hana frá orði til orðs, og hún er mjög athyglisverð. Gagnstætt því sem hæstv. utanríkisráðherra, sem nú er flúinn úr salnum, hélt fram þá er þessi skýrsla hreinn áfellisdómur yfir Icesave-samkomulaginu. Það er rakið í hverjum töluliðnum á fætur öðrum hvernig þessi samningur er okkur óhagstæður og er algerlega í ósamræmi við það sem tíðkast og gerist og gengur í samningum á milli tveggja og þriggja fullvalda þjóða. Hægt er að tína til ótalmörg atriði. Það er athyglisvert að lesa umfjöllun þessarar virtu lögfræðiskrifstofu, sem ríkisstjórnin er að reyna að rægja eins og við vitum, um ákvæðið sem kennt er við Ragnar H. Hall. Þar er nánast frá orði til orðs tekið undir sjónarmið Ragnars H. Halls og okkar hinna sem höfum gert hans sjónarmið að okkar. Það er athyglisvert að í þessari skýrslu lögfræðinganna eru tekin tiltekin dæmi sem eru nánast samkynja þeim dæmum sem Ragnar H. Hall sjálfur lagði fram. Mig minnir að vísu að í dæmum Ragnars H. Halls hafi verið talað um persónu A og persónu B en það heitir Alice og Bob í lögfræðiáliti Mishcon de Reya og svona mætti áfram tala.

Vakin er athygli á því að gjaldfellingarákvæðin séu mjög grimmileg og nánast sé hægt að gjaldfella þessi lán hvenær sem er við minnstu hnökra sem verða á þessu samkomulagi. Talað er um vextina í þessu sambandi, að þeir séu gersamlega úr takti við gildandi vaxtastig sem er í samræmi við ábendingar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd. Einnig er 8. gr. samningsins gagnrýnd þar sem við föllumst á að ekki komi til málshöfðunar vegna tjóns sem samningarnir — eða eitthvað sem gerðist varðandi Landsbankann fyrir gerð samningsins. Þetta þýðir einfaldlega að við getum ekki leitað réttar okkar þó að Bretar sjálfir brjóti þennan samning. Á þetta er bent í þessu ákvæði. Það er líka talað um fullveldisákvæðið og bent á að jafnvel þær breytingar sem gerðar hafa verið séu ekki fullnægjandi. Síðan er sagt: Markmiðið með samningum af þessu taginu ættu auðvitað að vera þrenns konar. Hann á að vera pólitískt viðunandi, og því getum við ein svarað sem sitjum í þessum þingsal, hann á að vera skýr, hann á að vera sanngjarn og hann á að tryggja að við séum í færum til að borga.

Það er athyglisvert að þessi virta lögfræðistofa, utanaðkomandi aðili, sem hefur engra hagsmuna að gæta, segir: Það er ljóst mál að þessi samningur er hvorki skýr né sanngjarn og við teljum líka að Ísland hafi ekki efni á honum. Þeir benda á það í þessu sambandi, þegar menn velta fyrir sér hvort við höfum efni á honum, að þetta sé mjög dýr samningur og síðan sé hitt ljóst að með samþykkt hans séum við að axla skuldbindingar sem munu hafa áhrif á getu okkar til að fullnusta aðrar skuldbindingar Íslands og líka að mæta þörfum þegnanna með ríkisútgjöldum sem við ella þyrftum og vildum færa fram. Lögfræðistofan færir síðan rök fyrir því að skynsamlegast væri að taka málið upp að nýju í ljósi þeirra efnahagslegu byrða sem samningurinn leggi óneitanlega á okkur. Þetta megi auðveldlega leggja upp með rökum og ábendingum um að um sé að ræða endurskoðun á samningi sem gerður hafi verið fremur en við séum að hafna samningnum. Með öðrum orðum þá má mögulega, eins og þeir segja og með sanni, færa fram þessa beiðni sem uppbyggjandi tillögu í því skyni að þoka málum áfram en ekki aftur á bak með það í huga að tryggja góða og varanlega lausn.

Ég spyr: Af hverju getur ekki ríkisstjórnin hlustað á þetta, dokað við með þetta mál, nálgast það með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, með rökum sem eru lögð fram með skilmerkilegum hætti. (Forseti hringir.) Það er ekki gert, það má ekkert gera, það má ekki hlusta vegna þess að ríkisstjórnin hefur það eitt að markmiði að fullnusta Icesave-samninginn, kolómögulegan samning, sem hún ber ein ábyrgð á, forsendum hans og afleiðingum.