138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að það er hneisa fyrir slíka stofnun en því miður virðist það vera veruleikinn og við hann búum við.

Hv. þingmaður velti upp viðunandi lausn, að hún sé ekki til staðar nú. Ég spyr þá hv. þingmann eins og gjarnan, ég mundi vilja skiptast á skoðunum við hann frekar í dag en þetta er seinna andsvar mitt: Eru þá fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti í haust viðunandi lausn að hans mati? Að mínu mati eru flestir þeir fyrirvarar komnir inn í samninginn núna nema þá helst það að við borgum vextina, en samkvæmt mati okkar færustu hagfræðinga munum við hvort sem er borga vextina samningstímann.

Það er skoðun mín að endurreisnarstarfið í landinu velti á því að koma þessu máli frá, hvort sem það er endurskoðun AGS, hvort sem það eru lánin frá Norðurlöndunum, hvort sem það er möguleiki okkar til að endurfjármagna skuldir opinberra aðila, fyrirtækja eða einkafyrirtækja, það veltur á því að fá þetta mál frá.

Því var velt upp í blaðagrein í Morgunblaðinu í dag af hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að til skamms tíma sé betra að klára þetta mál en til langs tíma sé það ekki. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Getur hann verið sammála þeirri skoðun minni að til langs tíma sé það ekki síður mikilvægt fyrir okkur að koma endurreisn efnahagsins í gang á nýjan leik? Því að það, eins og hv. þingmaður fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins hefur margoft talað um, að breikka skattstofnana er mikilvægt fyrir okkur til að við náum að endurreisa efnahaginn í landinu. Til þess þurfum við að reisa við efnahagslífið strax til að geta komið hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og því er ekki síður mikilvægt fyrir okkur til skemmri tíma og ekki síður til langs tíma að koma hjólum efnahagslífsins sem allra fyrst í gang.