138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit hafa farið fram á Alþingi langar og stangar umræður um þetta eitt stærsta mál Íslandssögunnar, Icesave-málið. Sífellt eru að koma fram nýjar upplýsingar og sífellt að koma í ljós að enn eru gögn sem við þingmenn höfum ekki fengið að sjá. Enn bíðum við eftir gögnum og ég vona svo sannarlega, frú forseti, að því verði þannig til haga haldið að þau gögn komi fram í dagsljósið áður en við greiðum atkvæði í þessu stóra máli.

Í 3. umr. hefur komið enn betur í ljós, og í ljósi þeirra gagna sem aflað var í kjölfar þess samkomulags sem stjórnarandstaðan náði að knýja fram á þinginu, að málið virðist allt saman byggja á misskilningi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Hæstv. fjármálaráðherra rökstuddi svo þá niðurstöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komist að í þessu máli, að hið „illræmda minnisblað“, svo vitnað sé til orða hans, með leyfi forseta, sem undirritað var með Hollendingum, hafi gert það að verkum að núverandi ríkisstjórn hafi verið bundin í báða fætur varðandi þetta mál. Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni 8. júní 2009.

Frú forseti. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er stjórnmálamaður sem hafði ákveðið mikil völd á síðasta ári og var utanríkisráðherra á þeim miklu umbrotatímum þegar bankarnir féllu, hefur lagt fram minnisblað til utanríkismálanefndar um það hvernig þessum málum var háttað í tíð hennar. Mér virðist sem hæstv. fjármálaráðherra hafi á engan hátt sett sig inn í það ferli sem þetta mál var búið að fara í gegnum og hafi ekki sett sig inn í það hver staða málsins var þegar sú ríkisstjórn sem nú hefur forræði á þessu máli tók við. Í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kemur nefnilega fram að þegar gengið var í það verk að búa til hin svokölluðu Brussel-viðmið hafi samkomulagið við Hollendinga frá 11. október verið úr sögunni. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þetta er diplómatískt samkomulag [þ.e. Brussel-viðmiðin] sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“

Og þar með er fallin sú grundvallarforsenda sem núverandi ríkisstjórn byggir allan sinn málflutning á. Svona einfalt er þetta. Mér er algerlega hulin ráðgáta hvers vegna ráðamenn þjóðarinnar geta ekki horfst í augu við það að þeir hafa gert hér mikil mistök í þessu máli og vilja ekki taka málið aftur til skoðunar á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Hvers vegna var fallið frá þeirri leið að fá forustuþjóðir ESB til að vera millilið í málinu, til að leysa þetta mál? Hvers vegna var fallið frá því? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað þrátt fyrir hinar löngu og ströngu umræður um málið.

En það er ekki aðeins um þetta sem hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna virðast vera haldnir einhverjum misskilningi. Nú er það svo að Mishcon de Reya, sem er virt lögmannsstofa í Bretlandi, hefur skilað fjárlaganefnd áliti á þessum samningum og því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Í álitinu er að finna fjölmargar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara. Vissulega er sagt í álitinu að ef Alþingi mundi fella málið og á það yrði látið reyna fyrir dómstólum sé ekki hægt að fullyrða um á hvorn veginn málið mundi fara. Nú þekki ég engan lögmann sem mundi nokkurn tíma lýsa því yfir við skjólstæðing sinn að hann væri með algerlega unnið mál í höndum. Þetta er einfaldlega svar sem lögmannsstofur gefa og ríkisstjórnarflokkarnir hafa reynt að gera mikið úr að það sé nú ekki alveg víst í ljósi álits lögmannsstofunnar að við mundum vinna slíkt mál. Að sjálfsögðu er það ekki víst.

En það var ekki þessi punktur sem ég ætlaði að koma inn á, frú forseti, heldur sá að í álitinu er að finna umfjöllun um að tilgangur tilskipunarinnar um innstæður frá 1994, sem við leiddum inn í okkar rétt úr EES-rétti, sé ekki að tryggja innstæður við kerfishrun, og í því sambandi er vísað til skýrslu nefndar franska seðlabankans frá árinu 2000 sem var þá undir forustu núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Í þessari skýrslu eru sérstaklega færð rök fyrir því að regluverk Evrópusambandsins um innstæðutryggingar taki ekki til kerfishruns. Var það ekki einmitt það sem gerðist á Íslandi? Hér varð kerfishrun.

Misskilningurinn hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna kristallaðist í orðaskiptum mínum við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson fyrr í dag, þar sem hann lýsti því yfir að Icesave-málið væri ekki afleiðing kerfishruns heldur einstakt mál sem tengdist Landsbankanum og hefði ekkert með kerfishrunið eða bankahrunið á Íslandi að gera. Þetta er furðuleg söguskýring og virðist stafa af einbeittum vilja til að skilja ekki málið, einbeittum vilja til að finna sér pólitíska sannfæringu fyrir því að styðja þetta mál eins og forsætisráðherra leggur hart að sínum liðsmönnum að gera. Þetta er einbeittur brotavilji til að reyna að finna sér pólitíska sannfæringu, en ég ber þó virðingu fyrir því, virðulegi forseti, að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segist hafa pólitíska sannfæringu í þessu máli og ætlar að styðja það. Ég held að ég geti fullyrt að hann sé eini hv. þingmaður stjórnarliðsins sem hefur gengið svo langt að lýsa því yfir að hann hafi pólitíska sannfæringu í þessu máli og það er svo sem ágætt út af fyrir sig ef sú sannfæring væri á rökum reist.

Frú forseti. Mig langar að fara aðeins í gegnum fleiri atriði sem breska lögmannsstofan hefur gert athugasemdir við. Farið er í gegnum lánasamningana alla og gerðar athugasemdir við ýmis ákvæði, mjög mörg, að þau séu óeðlileg og þar sé langt gengið en það eru tvö atriði sem ég ætla að staldra við. Í fyrsta lagi eru það gjaldfellingarheimildirnar í samningunum. Í umfjöllun Mishcon de Reya segir að gjaldfellingarheimildirnar séu óvenjulega víðtækar og meðal þeirra gjaldfellingarheimilda sem sérstaklega eru teknar til umfjöllunar í álitinu vegna þess að þær séu svo íþyngjandi eru grein 12.7 og 12.1.10. Það kemur fram á bls. 43 í álitinu að fjárlaganefnd er ráðlagt að setja svokallað „disclosures“ á breska samninginn til að tryggja réttindi Íslands. Ég hef spurt að því hvort fjárlaganefnd hafi skoðað þessar ráðleggingar. Ég hef fengið fá svör en þó skilst mér að þessar ráðleggingar hafi að engu verið hafðar. Það er áhyggjuefni.

Þá er fjallað um í álitinu möguleikana til að endurskoða samningana ef skuldir þjóðarbúsins fara yfir 240% af vergri framleiðslu og að í þessu ákvæði samningsins felist ekkert annað en að halda fund um þá stöðu, að í þessu felist ekki nein ákveðin skuldbinding af hálfu Breta eða Hollendinga. Það er athyglisvert vegna þess að þessu ákvæði hefur einmitt verið flaggað af hálfu stjórnarliða í umræðunum þegar við í stjórnarandstöðunni höfum verið að gera athugasemdir við það að efnahagslegi fyrirvarinn sem Alþingi samþykkti í sumar hafi að engu verið hafður, sé nú að engu orðinn. Þetta er atriði sem ég hef áhyggjur af og ég tel að ekki sé hægt að láta fram hjá sér fara svo viðamiklar og alvarlegar athugasemdir eins og lögmannsstofan breska hefur viðhaft um þetta mál.

Í þriðja lagi langar mig að fjalla aðeins um þá staðreynd, frú forseti, að í álitinu fullyrðir Mishcon de Reya að með því að nefna beinum hætti í viðaukasamningunum að samningarnir séu í samræmi við Brussel-viðmiðin felist það að ekki verði unnt að nota þau rök síðar. Nú er það þannig að í viðaukasamningunum er ekki hægt að finna þess neinn stað að verið sé að semja á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Hins vegar er sett inn fín setning um að þetta sé samt í anda þeirra. Þar með er okkar málsvörn fallin samkvæmt áliti Mishcon de Reya og það er alvarlegt mál.

Af öllu því sem ég hef haft áhyggjur af varðandi þetta mál, bæði að það byggir allt á misskilningi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hvað varðar þær grundvallarforsendur sem þeir byggja álit sitt á og eins gagnvart skilningi á því hvaða gildi innstæðutryggingartilskipunin frá 1994 hefur, þá hef ég gríðarlegar áhyggjur af því að menn ætli sér að taka hér á þingi ákvörðun í þessu stærsta máli Íslandssögunnar á grundvelli þröngra flokkshagsmuna. Ég er gríðarlega döpur þegar ég hugsa til þess að þetta sé það sem mönnum er efst í huga þegar við tökum ákvörðun sem varðar fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar, efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar til margra áratuga. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu, frú forseti, að við sem hér sitjum verðum að hefja okkur yfir slíka flokkadrætti í þessu máli, við verðum að gera það. Enginn þingmaður hér inni eða hagsmunir hans eru stærri en þetta mál. Þetta mál varðar svo mikla efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar að við höfum einfaldlega ekki leyfi til að horfa til þröngra flokkshagsmuna eins og mér virðist sumir hv. þingmenn ætla að gera í atkvæðagreiðslunni á morgun.

Nú er það svo að ríkisstjórnir koma og fara og ég skil vel að mönnum þyki völdin sæt, þeim sem sitja nú í ríkisstjórn og þeim sem styðja þá ríkisstjórn, en menn verða engu að síður að horfa á það að við erum með gríðarlega sérstakt mál í höndum. Mál sem skuldbindur íslensku þjóðina að því marki að börnin okkar gætu þurft að greiða af þessum lánasamningum út í hið óendanlega. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki raunin en hættan er til staðar þar sem fyrirvörum Alþingis sem samþykktir voru í sumar hefur verið kastað fyrir róða. Af þessu hef ég miklar áhyggjur, frú forseti, og ég vonast til að þeir hv. þingmenn sem sýndu óbilandi hugrekki í sumar og stóðu gegn því að ríkisstjórnarflokkarnir gætu keyrt í gegn hina upphaflegu Icesave-samninga, gætu keyrt þá í gegnum þingið án þess að við fengjum að sjá þá, án þess að þeir yrðu birtir, án þess að hér færi fram umfangsmikil efnisleg umfjöllun um málið, ég skora á þá þingmenn að skoða hug sinn enn og aftur og kanna hvort enn sé ekki til vottur af því hugrekki sem bærðist í brjóstum þingmanna í sumar til að leita annarra lausna í þessu máli en ríkisstjórnarflokkarnir reyna nú að koma í gegnum þingið. Íslenska þjóðin kallar eftir því að þingmenn reyni að sýna einhverja samstöðu. Það er ljóst. Sú samstaða er ekki til staðar og það byggist að miklu leyti á því að í öllu þessu máli hefur verið haldið þannig á því af ríkisstjórnarflokkunum að maður hefur á tilfinningunni að það megi ekki upplýsa alla þætti þess. Ég kom aðeins inn á það áðan að enn er verið að bíða eftir gögnum sem urðu til þess að samninganefndin, sem núverandi ríkisstjórn skipaði, breytti um afstöðu gagnvart tilteknum atriðum í þessu máli. Við erum enn að bíða eftir gögnum og það á að greiða atkvæði á morgun.

Frú forseti. Þetta eru ekki vinnubrögð sem mér hugnast. Þetta eru ekki vinnubrögð sem ég hélt að ríkisstjórnarflokkarnir vildu viðhafa. Ég hélt í sakleysi mínu þegar ég settist á þing og hæstv. forsætisráðherra talaði að nú ætti að viðhafa gegnsæja stjórnsýslu, opin og lýðræðisleg vinnubrögð o.s.frv. Það hefur margoft verið sagt úr þessum ræðustól en á borði er einfaldlega ekki hægt að finna þeim orðum stað, það er ekki farið eftir þeim orðum. Enn og aftur rekum við okkur á það og nú hér þrátt fyrir alla þessa ítarlegu umræðu, sem sumir hv. stjórnarþingmenn hafa leyft sér að kvarta yfir hversu löng sé orðin, og það skýrist m.a. af því að ríkisstjórnarflokkarnir draga enn lappirnar við að upplýsa málið, upplýsa okkur þingmenn þjóðarinnar og þjóðina alla um það á hvaða rökum þessi ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna byggir. Rökin hafa verið hrakin fyrir þeirri grundvallarforsendu sem fjármálaráðherra taldi upp í máli sínu í júní um að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi verið bundnir af því samkomulagi sem undirritað var við Hollendinga. Þau rök hafa verið hrakin. Það er einfaldlega rangt, með Brussel-viðmiðunum var því öllu saman breytt og þess vegna þurfti ekki að ganga jafnlangt til móts við sjónarmið Breta og Hollendinga. Það hefur einfaldlega verið fullyrt af þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og ég sé ekki að færð hafi verið fullnægjandi rök fyrir því af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að orð hennar séu markleysa, þótt þeir hafi sagt það hafa þeir ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna orð þeirrar ágætu (Forseti hringir.) fyrrverandi forustukonu Samfylkingarinnar séu allt í einu nú markleysa.