138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir eigum það sameiginlegt að hafa kynnt okkur þessi Icesave-mál afar vel og ítarlega og teljum okkur að sjálfsögðu vita hvað við erum að segja. Það er nefnilega staðfest í þessari grein ásamt lögfræðiálitinu frá Mishcon de Reya að Icesave-ábyrgðin, ríkisábyrgðin sem verið er að setja á þinginu, stenst í fyrsta lagi ekki evrópsk lög og í öðru lagi ekki íslensk lög heldur. Það kemur fram í þessari grein Magnúsar Inga Erlendssonar að þannig standa málin. „Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum“ er fyrirsögnin, hvorki meira né minna. Það er alveg sama hvaða rök við höfum dregið fram í dagsljósið til að reyna að koma vitinu fyrir þessa ríkisstjórn í sex mánuði. Þetta eru tveir þriðju úr meðgöngu konu. Hugsið ykkur, þetta Icesave-tímabil í þinginu er að verða hálft ár. Nei, það skal staðið í lappirnar með Bretum og Hollendingum, tekið undir málstað þeirra og boðskapur þeirra fluttur inn í hið íslenska þing. Það er óþolandi hvernig þessi ríkisstjórn vinnur og fjöldi fræðimanna, frábærir íslenskir fræðimenn, hefur bent á þetta allan þennan tíma sem þetta Icesave-mál hefur verið til umræðu en það er ekki hlustað á þá. Þetta eru einhverjir kjánar og þetta er þeirra misskilningur og þetta er hinsegin og þetta er öðruvísi, bara ef það hentar þeim, en svo er gleypt við öllu sem styður Icesave-frumvarpið. Þetta er, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði á sinni tíð, þjóðhættuleg ríkisstjórn sem hér starfar.

Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja en ég vil benda á það aftur að þessi grein tekur algerlega undir þau rök sem við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir flytjum í þessu máli og hér er það staðfest svart á hvítu.