138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir andsvar hennar sem var gott og lagði ýmislegt til málanna. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fjallaði aðeins um það í þinginu í gær að menn skyldu muna orð sín og þyrftu að geta staðið undir því hvað þeir hafa sagt í gegnum tíðina. Það hafa vissulega fallið mjög hörð orð í þessu máli í þinginu, ekki eingöngu af hálfu okkar sem í stjórnarandstöðunni störfum heldur jafnframt af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins og þá ekki síst hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hann sagði í ræðustóli í gær að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að skammast sín fyrir málflutning sinn í þessu máli. Ég tel, frú forseti, að þessi málflutningur hæstv. fjármálaráðherra sé fyrir neðan allar hellur. Hér stöndum við og færum rök fyrir því hvers vegna fella eigi þetta mál ríkisstjórnarinnar og hvers vegna við þurfum að fara vel yfir það í þinginu af hverju ríkisstjórnin leyfir sér að fella niður fyrirvarana sem við á Alþingi sátum sveitt við í allt sumar að semja. Ég skil ekki að ég þurfi að skammast mín fyrir að halda fram þeim rökum og reyna að fá fram svör við því hvers vegna þessi umskipti hafa orðið á afstöðu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna til fyrirvaranna sem Alþingi samþykkti í sumar. Ég sé ekki að ég þurfi neitt að skammast mín fyrir það. Ég er mjög sátt við þann málflutning sem ég hef viðhaft í þessu máli. Mér þykja fullyrðingar eins og þær sem hæstv. fjármálaráðherra viðhafði í gær vera dæmi um að ríkisstjórnarflokkarnir eru algerlega rökþrota við að skýra hvers vegna svona var haldið á málum og hvers vegna ekki var farið eftir Brussel-viðmiðunum. Þeir hafa ekki getað útskýrt það hér hvers vegna fallið var frá fyrirvörum Alþingis.