138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hann út í mál sem er nátengt þessu Icesave-máli. Það er vegna þess að einn af leikendunum í því máli er aftur kominn á sveim.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson lagði fram kemur í ljós að Jón nokkur Sigurðsson, fyrrverandi varaformaður stjórnar Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins sem þá var skipaður af viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, hefur fengið rúmar 8 millj. kr. greiddar á þessu ári fyrir ráðgjöf. Þegar þessi ágæti maður, Jón Sigurðsson, var formaður Fjármálaeftirlitsins skipaði hann Árna Tómasson nokkurn í skilanefnd Glitnis, sá er formaður skilanefndar Glitnis. Nú hefur skilanefnd Glitnis skipað Árna og Jón Sigurðsson, að mér skilst, í bankastjórn Íslandsbanka. Telur þingmaðurinn eðlilegt að maður sem ber svo mikla ábyrgð í þessu Icesave-máli og kemur hugsanlega fyrir í þeirri rannsókn sem nú er í gangi — ég veit ekkert um það, hann hefur skýr tengsl við annan stjórnarflokkinn í ríkisstjórninni — sé skipaður nú þegar á meðan allt leikur á reiðiskjálfi, á meðan verið er að semja um þetta Icesave-mál? Það varð að stórum hluta til þegar hann var formaður Fjármálaeftirlitsins. Telur þingmaðurinn að það sé eðlilegt að ríkisstjórnin, af því að við þurfum ekkert að efast um að fingraför hennar eru á þessu máli — að þessi skipun eigi sér stað með þessum hætti?