138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki taka þátt í því, frú forseti, að vera á einhverjum nornaveiðum gagnvart þeim sem eru að reyna að vinna úti í þjóðfélaginu. Það hefur örlað aðeins á þeim viðhorfum frá því að hrunið varð að þeir sem einhvern tíma hafa komið nálægt bönkunum hafi ekki rétt til að starfa eða vinna í íslensku samfélagi.

Varðandi þetta tiltekna mál sérstaklega tel ég augljóst að ríkisstjórnin hafi getað haft áhrif á það hvaða menn voru skipaðir þarna, það er augljóst. Þeir menn sem sitja í ríkisstjórn verða síðan að eiga það við sig hvort þessi ráðstöfun passar við þau siðferðisgildi sem sömu aðilar hafa verið að predika, bæði úr þessum ræðustól og eins þegar þeir voru í minni hluta og í stjórnarandstöðu. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í þessum stól í gær verða menn að kannast við sín eigin orð. Þeir geta verið dæmdir af þeim aftur í tímann. Orð og skoðanir eru ekki eitthvað sem lifir í nokkrar sekúndur heldur hlýtur maður setja fram einhverja sýn þegar maður er í pólitík. Maður hefur einhver viðhorf og einhverjar skoðanir sem maður ætlar sér síðan að standa við, líka þegar maður er kominn í ríkisstjórn.

En það virðist því miður vera svo að núverandi ríkisstjórn og þeir sem þar sitja hafi gleymt ýmsu af því sem þeir hafa sagt í fortíðinni. Ég get tekið dæmi um afstöðu Vinstri grænna í síðustu kosningum gagnvart aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú afstaða virðist hafa farið veg allrar veraldar enda erum við á hraðleið í einhverju aðildarumsóknarferli í Evrópusambandinu. Síðan held ég, frú forseti, að það væri hægt að finna ýmis ummæli frá ýmsum þingmönnum stjórnarliða sem gætu stangast á við það að sú ráðstöfun sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vísar til fái staðist, þótt ekki væri nema út frá siðferðilegum viðmiðum.