138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt út frá siðferðislegum forsendum sem ég varpaði þessari spurningu fram til hv. þingmanns. Ég er hér með 2. tbl. 2008 af Moment , sem er auglýsingapési Landsbankans sáluga, þar sem verið er að auglýsa Icesave-reikningana í Hollandi. Í því blaði er einmitt umræddur ágætur formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins eitt helsta sölumomentið. Látum það liggja á milli hluta í bili. Hv. þingmaður svaraði þessu ágætlega. Þetta er siðferðisleg spurning og því miður virðist sú siðferðisumbót, sem boðuð var af hálfu stjórnarflokkanna, þegar þeir voru kosnir af þjóðinni til að hafa meiri hluta á Alþingi, hafa farið fyrir borð á vegferð þeirra innan þingsala og í ríkisstjórn. Hún hefur týnst.

Mig langar að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar og það er út frá grein, sem vitnað hefur verið í, í Morgunblaðinu í dag eftir Magnús Inga Erlingsson en hann er tiltölulega nýtt nafn í allri gagnrýni á Icesave-samninginn. Magnús Ingi Erlingsson er héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti. Hann er að gagnrýna málatilbúnað í kringum Icesave-málið og segir að sú ríkisábyrgð sem væntanlega verður veitt sé byggð á mjög hæpnum forsendum. Hann segir m.a.: „Það er því niðurstaða hafin yfir vafa að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum sjálfseignarstofnunar hafi ekki við rök að styðjast.“ Telur þingmaðurinn að enn séu líkur á að fram eigi eftir að koma gögn og ábendingar sem þessar í þessu máli þó svo því verði hugsanlega lokið í fyrramálið.